18.08.1931
Neðri deild: 32. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í D-deild Alþingistíðinda. (1663)

28. mál, vegamál

Bernharð Stefánsson:

Ég verð nú að segja, að ég skil ekki, hvaða kapp samgmn. og ýmsir fleiri leggja á að koma þessari till. fyrir kattarnef. Ég get að vísu játað, að það er varhugavert að samþ. fyrsta og síðasta lið hennar athugunarlitið. En hinir liðirnir eru ekkert annað en öryggisráðstafanir, sem mér sýnist, að séu nokkurn veginn sjálfsagðar, a. m. k. flestar þeirra. Ég hafði nú hugsað mér að koma með brtt. við 1. lið og 8. lið líka. En þar sem þetta er fyrri umr. og málið á að ganga til 2. umr., þá finnst mér það mega dragast og till. verða samþ. eins og hún er nú. Það er alltaf vegur að breyta henni við síðari umr.

Það hefir verið talað hér mikið um það, einkum af síðasta ræðumanni, að það væri hreinasta fjarstæða, að ófaglærðir menn væru að skipta sér af, hvernig vegir væru lagðir og annað slíkt. Þingmenn eru nú fulltrúar þjóðarinnar, og ég get fullvissað hv. 4. þm. Reykv. um það, að yfirleitt er almenn óánægja meðal þjóðarinnar út af vegunum að ýmsu leyti. Það er nú t. d. með þessa frægu króka. Ég get búizt við; að sumir krókar séu orsakaðir beint af landslaginu, að það er hagkvæmara og ódýrara að beygja veginn. En við höfum víst sjálfsagt allir séð króka á vegum, sem hefir líklega verið dýrara að leggja og að öllu leyti óhagkvæmara en gera veginn beinan. Í mínu byggðarlagi er einn krókur, sem alveg áreiðanlega hefir verið dýrara að leggja en beinan veg á sama stað. Það ber öllum saman um. Eins er með króka, sem eru við brýr. Það kann að vera sumstaðar óhjákvæmilegt, t. d. þegar vegur liggur meðfram á og á brú yfir ána. En það er áreiðanlega ekki æfinlega svo, og það þarf enga sérstaka sérfræðinga til að sjá þetta.

Mig minnir það væri hv. síðasti ræðumaður, sem afsakaði krókinn við Gljúfurá í Borgarfirði með því, að brúin væri byggð löngu áður en bílar komu. En það er brú í mínu byggðarlagi, sem byggð var í hitteðfyrra, auðvitað eftir að bílar voru farnir að ganga þá leið, sem mjög svipaður krókur liggur að og flestir álíta alveg þarflausan. Með 2. og 7. lið þessarar till. er ekki annað sagt en það, að því er beint til vegamálastjórnarinnar, hvernig menn óski, að þessu skuli hagað. Mér finnst rétt, að þær óskir komi frá þjóðinni, sem vitanlegt er, að þjóðin vill bera fram. Ég álít óþarfa varfærni að samþ. dagskrártill., það megi vel samþ. till. eins og hún liggur fyrir. Þó skal ég játa, að það ætti að breyta 1. og 8. lið við síðari umr. Og fái till. að ganga til síðari umr., mun ég koma með brtt., að þau takmörk verði sett við 1. lið, að vegirnir verði ekki gerðir breiðari en 4 metrar, þó umferðin sé mikil. Og um 8. lið, að fella burt það ákvæði, að þetta þurfi að gerast fyrir næsta þing. Því að mér getur skilizt, að lengri tíma þurfi til undirbúnings þessa máls. En að þessi undirbúningur sé nauðsynlegur, dylst mér ekki, því að það á einmitt að vera ákveðið „plan“ fyrir því, hvernig vegirnir eru lagðir um landið og í hvaða röð það er gert.