18.08.1931
Neðri deild: 32. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í D-deild Alþingistíðinda. (1669)

28. mál, vegamál

Magnús Jónsson:

Það er alltaf verið að reyna að lappa eitthvað upp á þessa till. Eru nú komnar fram 2 skrifl. brtt. við hana, og er það ljós vottur þess, hve till. var mikið hráæti og illa undirbúin, enda býst ég við því, að það mundi koma í ljós, ef farið væri í gegnum alla liði till., að nauðsynlegt væri að bera fram brtt. við flesta liðina, ef þá ekki alla.

Mér hefir aldrei dottið í hug að ætla mér að halda því fram, að vegamál okkar væru eins fullkomin og frekast yrði á kosið, en hitt sagði ég, að í 9 tilfellum af 10, þegar leikmenn eru að finna að í þessum efnum, væru aðfinnslurnar sprottnar af ónákvæmri athugun. Það heyrist oft talað um eitt og annað vegunum viðvíkjandi, sem á að vera ósköp heimskulegt hjá sérfræðingunum. Menn fárast t. d. yfir því, hve mikið sé um ástæðulausa króka á vegunum, en við nánari athugun kemur það í ljós, að hjá þessum krókum varð ekki komizt, grundvöllurinn t. d. verið þar hentugri, ofaníburðurinn nær, slakkar, sem annars hefði þurft að hlaða upp í, gil o. s. frv. Hér sem oft endranær eru pólitísku leirkerasmiðirnir á ferð, sem þykjast hafa á öllu vit, en hafa þó ekki athugað neitt til fulls. — Það sagði einhver það áðan, að þessa till. bæri að skoða sem bendingar til vegamálastjóra og ráðunauta hans. En mér er nú spurn: Hvað er það í þessum till., sem ekki hefir verið athugað áður? Allt eru þetta æfagamlar athuganir, svo sem stöplar með vegbrúnum, brýr yfir ræsi, að vegirnir séu hafðir sem beinastir, að hafðir séu eftirlitsmenn o. s. frv. Og ég skil ekki annað en að þeim mönnum, sem gert hafa vegamálin að sínu æfistarfi, sé fullkunnugt um þetta allt. Annars finnst mér menn ekki taka tillit til þess, að allir þessir hlutir kosta eitthvað, og þó að við verjum árlega miklu fé til vegaframkvæmda, þá er það þó ekki meira en svo, að það verður að meta það í hvert skipti, hvort heldur eigi nú að verja því til þessa vegarins eða hins. Það þýðir ekki að vera að þjóta til annara landa, þar sem vegakerfin eru upp á það fullkomnasta, sem hugsazt getur, og segja sem svo, að þar sé þetta nú haft svona og svona. Það minnir mig á það, þegar menn eru að furða sig yfir því, að ekki skuli vera skemmtigarður hér í Reykjavík eins og í öðrum borgum, þó að hér séu ekki nema örfáar götur svo, að í sæmilegu lagi séu, og yfirleitt allt ógert samanborið við það, sem er í borgum í öðrum löndum, þar sem búið er að vinna allt, að kalla má, af því, sem þarf að vinna. Þó að ekki séu nema stöplar og aðrar varnir á vegbrúnum, þá kostar þetta þó sitt fé, og menn verða að gera það upp með sjálfum sér, hvort þeir vilja heldur þessar umbætur eða nauðsynlegar vegalagningar. Ekkert af þessum atriðum er vegamálastjóra ókunnugt um, en hann hefir talið hentara og betra að verja því fé, sem honum er fengið til umráða, til eins og annars, sem hann hefir talið nauðsynlegra. Það er því í hæsta máta ómaklegt, þegar verið er að tala um, að vegamálastjóri hafi ekkert aðhafzt í þessum efnum af tómri vanrækslu eða jafnvel hreinni mannvonzku. Vil ég taka undir þau lofsamlegu ummæli, sem hv. þm. Borgf. hafði um vegamálastjóra, því að hann er mjög árvakur og atorkusamur í sínu starfi. Er t. d. leitun á embættismanni, sem gefur eins skýr yfirlit um starf sitt, bæði að því er snertir það, sem gert hefir verið, er verið að gera, og ætlazt er til, að gert verði í framtíðinni í vegamálum.

Um einstök atriði þessarar till. ætla ég ekki að ræða, eins og t. d. þetta mikla stöplamál. En ég held, að erfitt verði að ganga svo frá vegabrúnunum, að enginn bjáni geti farið út af. Mér kemur í hug, þegar Bandaríkjamenn settu n. manna í það að reyna að koma í veg fyrir, að menn tækju inn eitur í misgripum. Var allt upphugsanlegt gert til þess að gera meðalaglösin bjánatraust, en með litlum árangri. Ég ætla, að eins mundi reynast í þessum efnum, enda liggur aðalöryggið í því, að bílstjórarnir sjálfir fari gætilega, auk þess sem alltaf er hætt við því, að slíkar varúðarráðstafanir verði til að gera menn andvaralausari en ella, án þess þó alltaf að geta komið í veg fyrir slys. Annars fer því fjarri, að hvergi sjáist slíkar varnir á brúnum hér á landi, því að þær eru að kalla alstaðar, og ekki aðeins á brúnum, heldur eru grindurnar oft framlengdar langt frá brúnni eftir vegkantinum, og með brúm yfir ræsi eru ósjaldan skáhallar hlífar, ef brúin er ekki jafnbreið veginum.

Ég átti um nokkur ár heima í NorðurDakota, og þar var þá vegamálunum líkt á leið komið og nú er hjá okkur; þar var aðaláherzlan lögð á það að koma vegunum áfram, eins og gert hefir verið hér, en annað eins og þetta látið sitja meir á hakanum, eins og rétt er, meðan vegamálin eru ekki komin í sæmilegt horf.