06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Ólafsson:

Ég má ekki flytja hér nema stutta aths.

Mér þykir leitt, að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera hér í d., því að við hann þyrfti ég að ræða. Það er sennilega svo komið, að búið er að ganga svo frá þessu máli, lóðakaupum ríkisstj., og svo margir komnir inn í það, að það er víst vonlítið, að hægt sé að koma vitinu fyrir forgöngumenn málsins. Ég verð að segja hæstv. forsrh. það, út af því, sem hann var að tala um, að menn mættu fyrirverða sig fyrir að þurfa að bjóða útlendingum inn í þau hús, þar sem ríkisstj. situr, að þjóðin þarf ekki að fyrirverða sig fyrir það. Það er að mínu áliti betra að hafa lítið hús með gildri pyngju en stóra byggingu með galtómum sjóði. Við höfum nú tæplega ráð á að standa skil á þeim gjöldum, sem eru lögboðin, og er því hálfbroslegt að heyra talað um nauðsyn stórbyggingar í því fjármálaástandi, sem nú ríkir, og hlýtur að láta eftir hin ömurlegustu spor fyrir framtíðina. Þetta er það, sem undir öllum kringumstæðum verður að athuga, þegar verið er að tala um stórar skrautbyggingar og annað eftirlæti, sem lítil þjóð hefir ekki ráð á. Komi það fyrir, að mönnum sýnist stjórnarráðshúsið of lítið fyrir þá, sem þar eiga að sitja í framtíðinni, þá er ekki annað en að brjóta það niður og byggja annað upp. Það er miklu ódýrara, enda mun það tæplega koma til mála, að stjórnarskrifstofurnar verði fluttar af þessum ágæta stað með aðgang á þrjá vegu. Byggði þjóðin nú fyrir vöxt hennar um aldaraðir, yrði það henni of dýrt vegna vaxta og viðhalds, og jafnvel miklu dýrara en niðurrif og endurbygging eftir vissan árafjölda.

Ég er alveg hissa á þeirri bjartsýni, sem lýsir sér í þessu lóðakaupamáli upp á 400 þús. kr., sem ekki þarf að nota í náinni framtíð, og eyða þar með stórfé frá ríkissjóði, sem ætíð mun hafa of lítið fé til nauðsynlegra framkvæmda til hagsbóta fyrir almenning.

Ég get sagt til dæmis um þetta, að fyrir nokkrum árum keypti Reykjavíkurbær eign fyrir 150 þús. kr., en er nú að verðmæti um 50 þús. kr. Bærinn varð auðvitað að taka lán og borga af því 8%, en fær af þessu 2½%. Þeir, sem vilja, geta nú reiknað, hvað lengi þessi eign verður að komast upp í milljónir, nú er hún komin á 4. hundrað þúsund kr. Ef þetta er kallað gott ráðlag, þá er bezt að fylgja því fordæmi í þessum lóðakaupum fyrir ríkissjóð. En ég er sannfærður um það, að þegar menn átta sig á þessu, þá komast þeir að raun um, að hér hefir verið farið gálauslega með fé ríkissjóðs.

Ég hefi sérstaka ástæðu til að vita ríkisstj. fyrir þessa till. eða fyrsta flm. hennar, hæstv. fjmrh. Ég víti og það algerða hugsunarleysi, sem hér er um að ræða, alveg eins og hv. 4. þm. Reykv. játaði, að hann fylgdi þessu, án þess að hann hefði reiknað út eða hugsað um, hvað verið væri að gera. Annars virtist mér hæstv. fjmrh. heldur á því, að þetta væri ekki sem bezt ráðið, en hann sagði aftur á móti, að það væri æskilegt að eiga góða lóð fyrir byggingar, sem hann varðist allra frétta um, hverjar yrðu. En ég held, að það sé ekki mikill vandi fyrir stjórnina að vita það. Hún getur vel séð, hvað erlend ríki eru bundin við að eiga af þjóðhýsum og farið eftir því. Mér er ekki nærri nóg, að því sé slegið upp, að forseti lýðveldisins eigi að eiga þarna heima o. s. frv.

Hv. 4. þm. Reykv. þóttist heyra hjá mér þetta gamla hljóð frá bæjarstj. Rvíkur. Ekki skal ég bera á móti því, en ekki býst ég við, að bæjarbúar telji sig liða fyrir það. En sennilegt er það þó, að ýmsir málskrafsmenn, skilningslitlir á hinar heppilegustu og hagkvæmustu hliðar málsins, finni ástæðu til aðfinnslu.

Því hefir oft verið haldið fram, að þm. Reykv. vildu allt undir Rvík. Í þessu máli eru það ekki hvað sízt sveitaþm., sem ýta undir þetta hið stærsta lóða- og húsabrask, sem drifið hefir verið hér síðan Rvík byggðist.

Hv. 4. þm. Reykv. opinberaði nú sinn þekkingarskort og nekt í þessu máli, því að hann segir, að hér dugi engir útreikningar; þessar lóðir verði að kaupa til að prýða bæinn. Ég held, að þeir, sem búa hér í bæ og gera sér grein fyrir því marga, sem vantar til þess að fólki geti liðið sæmilega, séu ekkert að hugsa um að brjóta niður gömlu byggingarnar til að prýða bæinn. Ef hv. þm. vildu tala um þetta með alvöru, þá væri öðru máli að gegna. En þessu er slegið fram og talað um það með staðlausu fleipri. Þessi sami hv. þm. talaði um þessa rödd bæjarstj. Það er sú rödd, sem heldur á móti því þó að hún verði borin ofurliði — að kaupa eignir, sem munu, eins og nú þegar er komið á daginn, koma til með að kosta svo mikið í framtíðinni, að ekki verður með tölum talið.

Það, sem aðallega vakti fyrir hv. 4. þm. Reykv., var það, að í bæjarstj. væri ekki nógu mikil fyrirhyggja með eitt og annað, t. d. til að hugsa fyrir góðum stað, þar sem hægt væri að byggja opinberar byggingar, en hverjar þessar opinberu byggingar væru, var auðvitað ekki getið um, nema það væntanlega ráðhús bæjarins, sem löngu er ákveðinn staður. Það lítur ekki út fyrir, að hv. 4. þm. Reykv. þekki fjárhag bæjarins, þegar hann er að tala um þessa kumbalda í bænum, en þar verður þó að sníða stakk eftir vexti, og muna mætti hann það hús, sem hann hefir sjálfur byggt í bænum, og verður ekki séð, að það beri vott um smekkvísi, og hann má ekki halda, að nein bæjarbrýði sé að því, því að hér er ekki hægt að finna óásjálegri kofa! Það er ósköp hægt að draga svo og svo stórar og glæsilegar myndir upp í huganum, en hugsa síðan ekkert um, hvernig eigi að gera þær myndir að veruleika. Hv. þm. hefir dottið í hug, að bústaður lýðveldisforseta yrði nokkurskonar konungshöll, honum datt ekki í hug í bráðina nein önnur leið.

Ég þurfti að tala við fleiri en hv. 4. þm. Reykv., en af því að ég sé, að hæstv. forseti er orðinn óþolinmóður yfir lengd þessarar aths., þá verð ég að setjast niður, en vona, að ég fái að bera af mér sakir, ef þær verða á mig bornar.