24.07.1931
Neðri deild: 11. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í D-deild Alþingistíðinda. (1678)

21. mál, sala viðtækja

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Mig furðar mjög á þeim undirtektum, sem þessi meinlausa till. á að mæta, en ég get þó ekki annað en bæði undrazt og glaðzt yfir þeim áhuga, sem nú virðist skyndilega vera vaknaður hjá hæstv. forsrh. fyrir verklegum framkvæmdum, og ég vona, að hann sé ekki einungis sprottinn af löngun til þess að spilla fyrir þessu máli, heldur komi í ljós í verkinu, t. d. við afgreiðslu fjárl.

Þá vík ég að hv. þm. Dal. Hann sagði, að þessi till. væri einungis miðuð við kaupstaðina. Þetta er algerlega rangt og sýnir, að hv. þm. er ekki svo kunnugur úti um sveitir landsins sem hann vill láta líta út fyrir. Mikill fjöldi bænda býr við þá aðstöðu, að kaupfél. annast öll kaup fyrir þá á hvaða tíma árs sem er, og færa það í reikning þeirra, sem þeir svo greiða með afurðum búa sinna aðallega á haustin. Ef hv. þm. veit ekki þetta um verzlunarhætti bænda, þá ætti hann að minnast þess framvegis.

Þá sagði hv. þm. Dal., að það væri undarlegt, að ég, sem væri „þjóðnýtingarmaður“, skyldi fara fram á slíkt. Því ekki væri það tilgangur okkar jafnaðarmanna, að ríkið færi að braska með áhættusama skuldaverzlun. Ég veit ekki betur en við jafnaðarmenn höfum jafnan barizt fyrir því verzlunarfyrirkomulagi, sem við teljum, að sé viðskiptamönnunum hagkvæmara en viðskipti við verzlanir, sem einstakir menn reka aðeins í fjáröflunarskyni. Þegar ákveðið var að hafa einkasölu á viðtækjum, var það gert af tvennum ástæðum. Hin fyrri var sú, að gera verzlunina hagfelldari viðskiptamönnunum, en hin síðari sú, að afla ríkissjóði tekna á þann hátt, sem svo síðar gengju til þess að jafna tekjuhalla útvarpsins. Mig furðar á því, að ég skuli þurfa að minna hv. þm. Dal. á þetta, en það virðist sannarlega ekki veita af því. Hvernig tekizt hefir á þennan hátt að afla útvarpinu tekna, geta menn sannfærzt um þegar menn líta í fjárlagafrv. fyrir árið 1932, þar sem gert er ráð fyrir, að tekjur útvarpsins verði 200 þús. kr. Eftir þeim upplýsingum, sem lágu fyrir fjvn. í vetur, voru um 3000 útvarpsnotendur á landinu, og sé áætlunin miðuð við sömu tölu og nokkra aukningu, má gera ráð fyrir 90 þús. kr. — 100 þús. kr. tekjum af afnotagjaldi á árinu 1932. Hitt, liðlega 100 þús. kr., verður að koma frá viðtækjaverzlun ríkisins; það er hagnaðurinn, sem fæst af henni, og eftir upplýsingum, sem í vetur lágu fyrir frá forstöðumanni verzlunarinnar, er þetta mjög varlega áætlað. Ég ætla ekki að svo stöddu að gera grein fyrir því, hvað gert er ráð fyrir, að hagnaðurinn gæti orðið mikill; ég veit ekki. hvað öllum væri það kærkomið, en ef þess verður óskað, mun ég gera nokkuð fyllri grein fyrir þessu en ég hefi nú gert.

Þá var það niðurlagið í ræðu hv. þm., sem mér virtist vera í ósamræmi við fyrri hlutann. Fyrri hlutinn hneig að því að benda á, að þessi till. væri til óhagnaðar, en í síðari hlutanum sagði hv. þm., að það væri verið að athuga leiðir til þess að koma þessu í kring. Ég átti í fyrra tal við hæstv. stj. um málið og fékk sama svar, að Viðtækjaverzlunin væri að athuga leiðir til þess að taka upp svipað sölufyrirkomulag og hv. þm. Dal. taldi nú, að verða myndi til þess að auka áhættu verzlunarinnar. Ég get nú drepið á þetta með áhættuna, og ég verð að lýsa yfir því, að mér finnst hún smávægileg. Eftir því sem ég þekki til, þá er afborgunarsamningurinn ávallt þannig, að viðtækið er ekki eign kaupanda fyrr en það er að fullu greitt, og þar sem þessu er þannig varið, munu menn af fremsta megni reyna að standa í skilum með greiðslur, til þess að koma í veg fyrir, að þeir missi tæki, sem þeir eru ef til vill búnir að greiða helming í eða meira. En ég get ekki neitað því, að ef dagskrá útvarpsins skyldi verða svo hörmuleg, að menn hefðu raun af því að hlusta á hana, sem ég hefi þó ekki ástæðu til þess að ætla, þá getur orðið nokkur áhætta fyrir útvarpið. En verði hún góð, svo að menn telji feng í því að hlusta á hana, þá er enginn vafi á því, að það er með öllu áhættulaust að veita allt að 2 ára gjaldfrest.

Hv. 4. þm. Reykv. söng sinn venjulega söng um það, hvers vegna ríkið eigi að vera að leggja út í þetta amstur og erfiði, þegar nóg sé til af einstaklingum, sem vildu taka að sér þessa fyrirhöfn og þetta amstur. Ríkið hefir nú dálítið annað en erfiði og amstur af þessari verzlun. Það hefir a. m. k. liðlega 100 þús. kr. tekjuafgang, og ég býst við, að það sé hann, gróðinn, sem einstaklingarnir vilja gjarnan ná í, en ekki erfiðið eitt. Annars skal ég ekki að sinni fara að deila við hv. þm. um ríkisrekstur og einstaklingsrekstur; en mér finnst hann hafa tekið þetta mál alveg frá nýju sjónarmiði. Hæstv. forsrh. virtist hafa mjög mikið á móti þessari till. og sagði af nokkrum þjósti, að það væri blekking í orðalagi hennar, því þetta væri meira en breyt. á fyrirkomulaginu, það væri stórfé, sem ríkissjóður þyrfti á erfiðum tímum að afla sér til þessa. Ég geng þess ekki dulinn, að verzlunin þarf meira rekstrarfé, ef hún á að veita gjaldfrest, en það er enginn vafi á, að Viðtækjaverzlunin, sem er eina verzlunin á landinu með þessi tæki og getur gengið á milli erlendra firma og fengið beztu lánskjör, að henni er auðvelt að afla sér þess aukna fjár, sem hún þarf. Einn meginmunurinn á frjálsri verzlun og ríkiseinkasölu er sá, að einkasalan á kost á að fá stórum hagkvæmari kjör en einstaklingarnir, sem hokra hver út af fyrir sig. Ég efast ekki um, að hv. þm. Dal. er mér sammála um þetta. Þá sagði hæstv. forsrh„ að á þessum erfiðu tímum væri það illa farið, ef verið væri að ýta undir eyðsluna með því að veita mönnum gjaldfrest. Ég verð að segja það, að ríkisstj. hefir gengið stórum og hröðum skrefum á undan í eyðslunni. Hvað á að segja um þá eyðslu að leggja yfir 1 millj. króna í útvarpsstöð og verja 250 þús. kr. á ári til rekstrar henni? Hvaða vit væri í þessari eyðslu, ef svo ætti að neyða menn til að spara sér útvarpstæki til þess að geta hlustað á þessa dýru stöð? Ef útvarpsstöðin á að ná tilgangi sínum, þá eiga sem allra flestir að eignast viðtæki og geta heyrt til hennar. Því að byggja útvarpsstöð fyrir eina millj. króna og reka hana með stórum tekjuhalla til þess að einungis 3 þús. menn á landinu kaupi tæki og geti heyrt í henni, það er sannarlega öfugt við það, sem það ætti að vera. Slíkt væri að fleygja krónunni og spara eyrinn. Ég hefi ekkert á móti því, að þessi till. gangi til n. og umr. verði frestað, því að ég sé, að önnur till. um líkt efni er einnig komin fram.