29.07.1931
Neðri deild: 15. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í D-deild Alþingistíðinda. (1697)

75. mál, jarðeignaskýrslur

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég hefi nú ekki miklu við að bæta það, sem sagt er í grg. fyrir till. Ég skal þó geta þess, að eins og drepið er á í grg. eru samankomnar í þeim skýrslum, sem fylgja jarðamatsbókunum, allar þær upplýsingar, smáar og stórar, sem hægt er að fá um hverja jörð í landinu. En vegna þess, að í þessum skýrslum eru mjög margar upplýsingar og ýms fróðleikur, sem ekki er annarsstaðar að fá, en eru nauðsynlegar almenningi, og þó sérstaklega Alþingi við nýjar lagasetningar, er landbúnaðinn varða, og lánsstofnanirnar í landinu, vegna upplýsinga um veðhæfi þeirra eigna, sem lánað er út á, þá er það mjög nauðsynlegt að fá þær sem fyrst gefnar út allar í einu lagi.

Í þessum skýrslum er hægt að sjá t. d., hvaða jarðir eru í sjálfseign, hvaða jarðir í leiguábúð, hvaða tún girt, hvaða engjar girtar, hvar eru haughús, um nýrækt og jarðabætur, matjurtagarða og hlunnindi, hvernig íbúðarhúsin eru, hlöður og annað þess háttar.

Af þessu geta menn séð, að það er alveg nauðsynlegt, að þessi mikli fróðleikur, sem þarna er saman kominn, sé sem fyrst gerður aðgengilegur fyrir alla, sem þurfa á honum að halda, og vænti ég þess vegna, að hv. d. ljái þessu máli fylgi sitt. Það er nauðsynlegt að samþ. till., til þess að stj. fái heimild til að verja fé til þessa og aðhald til að láta vinna verkið.