29.07.1931
Neðri deild: 15. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í D-deild Alþingistíðinda. (1698)

75. mál, jarðeignaskýrslur

Jón Auðunn Jónsson:

Ég gæti hugsað mér, að útgáfa þessara skýrslna yrði allkostnaðarsöm, ef það er tilætlunin að láta prenta þær. En ég held, að það mætti vinna verkið ódýrara en ríkisstj. gæti látið gera, með því að fela Búnaðarfél. Íslands að annast þetta starf. Á vegum þess eru, eins og kunnugt er, margir menn, sem hafa ekki mjög mikið starf, og held ég, að þeir ættu að geta annazt þetta starf, kostnaðarlítið fyrir ríkissjóð.

Hinsvegar er það svo, að þótt þessar skýrslur væru gefnar út í eitt skipti, þá væri lítið á þeim að græða. Því þó þær séu ágætar upplýsingar, þegar þær eru gerðar, þá er þetta allt breytingum undirorpið, svo að eftir 1 eða 2 ár er ekki lengur hægt að byggja á þessum skýrslum. Það getur vel verið, að túnin séu þá stækkuð um helming og búið að byggja upp á þeim jörðum, sem upplýsingar á að fá um, og koma þá hinar gömlu lýsingar að litlum notum.

En þó er það nú svo, eins og hv. flm. tók fram, að það er nauðsynlegt fyrir lánsstofnanirnar að vita um ástand býla í landinu, þeirra, sem þær þurfa að veita lán út á, og því mjög þarft að gefa slíka skýrslu út. En þó skýrslan væri gefin út í eitt skipti, gæti hún ekki verið í gildi til fleiri ára, heldur yrði að gefa hana út með stuttu árabili. Það virðist því ekki vera þörf á að prenta þessa skýrslu, heldur muni vera nægjanlegt að fá hana í nokkrum eintökum, svo að t. d. ríkisstj. og bankarnir gætu fengið eitt eintak hver. (EA: Og söfnin). Já, ef hún væri prentuð. En þó eitthvað sé fjölritað, mun það ekki venja að láta söfnin fá eintak af því. En ég sé sem sagt enga ástæðu til að fara að láta prenta slíka skýrslu, þar sem þetta breytist frá ári til árs og getur því ekki verið áhyggileg heimild um ástand jarðeigna í landinu um fleiri ára skeið.

Ég vildi aðeins benda á þetta til athugunar fyrir næstu umr.