29.07.1931
Neðri deild: 15. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í D-deild Alþingistíðinda. (1699)

75. mál, jarðeignaskýrslur

Magnús Jónsson:

Það er aðeins lítilfjörleg fyrirspurn, sem ég vildi beina að hv. flm., af því að ég er svo ókunnugur þessu máli, t. d. hversu langar þessar lýsingar eru, sem hér um ræðir; en mér virðist í fljótu bragði að lýsingarnar hljóti að vera svo fyrirferðarmiklar, að hér yrði um ákaflega stóra bók að ræða, ef það ætti að birta þær allar í heilu lagi.

Af því sem sagt, að ég er svo ófróður um allt, sem lýtur að þessum skýrslum, get ég ekki hugsað mér, hvað mikið það mundi kosta að gefa þessar skýrslur út. En ég get vel ímyndað mér, að það yrði stórkostlega mikill kostnaður við þær. Ég vil því leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hv. flm., hvað þeir haldi, að þessi bók verði stór, og hvað hún muni kosta.

Mér finnst, að þær ástæður, sem hv. flm. færði fram fyrir nauðsyninni á því að birta þessar jarðeignaskýrslur, séu ekki sérlega mikilsverðar. Mér dettur ekki í hug að neita því, að það sé mikill fróðleikur í þessum skýrslum, en alþm. og bankar þurfa ekki á því að halda, að þessar skýrslur séu prentaðar. Það er nóg, að þær séu geymdar svo, að þeir hafi aðgang að þeim. Og ef það skyldi nú kosta ríkissjóð margar þúsundir eða tugi þúsunda króna að gefa út þessar jarðeignaskýrslur, þá held ég, að það sé annað eins skorið við neglur sér nú á þessum þrengingatímum eins og þó þessu væri sleppt. En sem sagt, það var aðeins þetta, sem ég vildi spyrjast fyrir um, hvað þetta myndi kosta.

En væri farið að gefa þessar skýrslur út, þá væri ekki nóg að gefa aðeins út þessar jarðeignaskýrslur, sem notaðar hafa verið við jarðamatið 1930, heldur yrði að halda skýrslunum við, og væru þær jafnóðum gefnar út og breytingar yrðu, því ástand fasteigna getur ákaflega fljótt breytzt.