29.07.1931
Neðri deild: 15. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í D-deild Alþingistíðinda. (1700)

75. mál, jarðeignaskýrslur

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þar sem hreyft hefir verið andmælum gegn þessari till., skal ég leitast við að svara þeim nokkru. Vitanlega er þetta breytingum háð frá ári til árs. Það liggur í augum uppi, að jarðeignalýsing, sem út væri gefin 1930–31, gæti ekki verið allskostar rétt 3–4 árum síðar. En ég hefi álitið nægilegt, að skýrslurnar væru gefnar út á fárra, segjum 10 ára fresti, þ. e. jafnan upp úr hinu almenna jarðamati. En á sama hátt eins og jarðamatsbókin er gefin út, þó að vitanlegt sé, að það stendur aldrei í stað, sem hún gefur upplýsingar um, á sama hátt álít ég, að jarðeignaskýrslurnar eigi að geta gert gagn, þó að ástand jarðanna sé nokkuð breytilegt.

Ég geri ráð fyrir, ef sú regla yrði tekin upp að gefa slíkar skýrslur út, að það yrði gert í hvert skipti, sem mati er lokið, það er á 10 ára fresti. Og ég er alveg sannfærður um, að fyrir ýmsar opinberar stofnanir og ýmsa þátta löggjafarstarfsins, t. d. ábúðarlöggjöfina, yrði afarmikinn fróðleik að sækja í þessar skýrslur.

Ég geri það ekki að neinu aðalatriði, hvort slíkar skýrslur yrðu prentaðar, eða þá í hve stóru upplagi. Og ég get heldur ekki sagt um kostnaðinn, sem af því leiddi. Sjálf vinnan, að vinna úr skýrslunum, ætti ekki að vera sérlega kostnaðarsöm, og má gera ráð fyrir, að bæði Búnaðarfél. og aðrir aðilar myndu vilja eitthvað til þess leggja. Aðalatriðið er það, að slíkar skýrslur séu til og í aðgengilegu formi og nægilega stóru upplagi til þess, að opinberar stofnanir geti haft þeirra full not. Ég legg megináherzluna á, að þetta sé unnið og hægt að hafa aðgang að hinum nauðsynlegu upplýsingum, en ekki hitt, hve skýrslurnar yrðu prentaðar í stóru upplagi, eða hvernig útgáfu þeirra yrði hagað að öðru leyti.