11.08.1931
Neðri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í D-deild Alþingistíðinda. (1708)

203. mál, Háskóli Íslands

Flm. (Magnús Jónsson):

Þessi till., sem hefir verið flutt af 3 þm. hér í þessari hv. d., hefir verið lögð fram með svo ýtarlegri grg., sem ég vona, að hv. þm. hafi lesið og athugað, að þeir sjá, hvað hér er farið fram á. Það er í raun og veru þess eðlis, að ég held varla, að ég þurfi að fylgja till. úr garði með mörgum orðum. Eins og menn vita, hefir undanfarið verið talað um nokkurn viðauka við háskólann, þó að þær umr. hafi verið meira innan háskólaráðs eða háskólakennara en frammi fyrir almenningi. En það, sem aðallega hefir verið talað um, er það, að háskólinn eins og hann er nú félli í fullþröngum farvegi og markaði ekki eins mikil áhrif á þjóðlífið eins og ástæða væri til. Þessar umr. hafa komið í sambandi við vandræði þau, sem stafa af stúdentafjöldanum. Það er ekkert pláss fyrir þá og þess vegna er hætt við, að hér vaxi upp einskonar öreigalýður lærðra manna. Það hefir verið talað um að loka fyrir þennan straum, og það hefir reyndar verið gert að nokkru leyti. En það er neyðarúrræði. Í stað þess vildu víðsýnir menn vinna nokkuð fyrir þessa prýðilega vel menntuðu menn, sem koma frá stúdentsprófinu, og litu svo á, að rétt væri að gera háskólann, auk þess sem hann undirbyggi embættismannaefni, að stofnun, sem gæti veitt lærðra manna straumnum út í hið praktíska líf með því að koma upp verzlunardeild, búvísinda- og kennaradeild við háskólann. Þjóðfélaginu mundi verða gróði að þessu, því hér væri leyst erfitt vandamál; þessar stéttir myndu græða á því, hvort heldur það væru bændur, verzlunarmenn eða kennarar, að fá svo vel menntaða menn í sinn hóp. Þar að auki mundi þetta koma sér vel fyrir menn, sem standa uppi í vandræðum með, hvað þeir eiga að taka sér fyrir hendur. En þessi till. gengur ekki út á þetta, heldur hafa verið teknir upp í till. þrennskonar viðaukar við háskólann, að stofna undirbúningsdeild við skólann, deild, sem annast undirbúningskennslu í nokkrum vísindagreinum, sem ekki eru kenndar nú. Í öðru lagi að stofna til sumarnámskeiða og í þriðja lagi að koma á framhaldsnámskeiði fyrir kennara, og þá er ekki bundið við, að þessir menn séu stúdentar.

Í raun og veru er fyrsta orsökin til þess, að till. var borin fram, fyrsti liðurinn í till. Vísindafélag Íslendinga, sem er skipað fræðimönnum í mörgum greinum, tók málið upp og rannsakaði, hvort ekki væri hægt að veita eins og tveggja ára byrjunarfræðslu í mörgum námsgreinum, sem nú er ekki hægt að fá kenndar hér. Með þessu myndi vera hægt að ná töluverðum vinningi. Fyrst og fremst það, að menn gætu verið hér heima, þar sem þeir annars þyrftu að sækja námið til útlanda í 1–2 ár, og með því sparað þjóðfélaginu mikið fé, og í öðru lagi það, að kraftar þeirra fræðimanna, sem hér eru, myndu notast betur. Eins er það betra fyrir stúdentana sjálfa að vera búnir að fá forsmekk af þessum vísindum áður en þeir leggja út í það að fara til annara landa. Svo gæti þetta undirbúningsnámskeið verið prófstimpill fyrir þá, sem eiga að fá styrk, því þá verður auðveldara að segja um það, hverjir eru verðastir þess að fá styrk. Þetta mál hefir verið athugað dálítið af mönnum, sem þessu eru kunnugir, og þeir hafa látið í ljós það álit, að það sé vel gerlegt að koma á fræðslu í flestum greinum, sem menn nú sækja til útlanda.

Hugmyndin um sumarnámskeiðin er máske meira uppi í skýjunum, en máske ekki ómerkilegri ef hún kæmist í framkvæmd. Sumarnámskeið eru haldin víða, t. d. í Þýzkalandi og Englandi, og þau hafa verið sótt mikið, og þær stofnanir, sem hafa haft þau, láta sér ekki detta í hug að hætta þeim. Hér myndu verða möguleikar til að veita fræðslu í íslenzkum fræðum, sögu og málfræði o. fl. Er ekki ósennilegt, ef þessu væri haldið uppi með dugnaði, að safna mætti fjölda útlendra manna yfir sumartímann, sem svo myndu bera landi og lýð rétta söguna út um heim. Ég er alveg viss um það, að þetta gæti orðið þjóðinni til mikils gagns. Þriðja till. er um það, að háskólinn taki að sér, eins og háskólar gera víða, að veita framhaldsfræðslu þeim, sem koma af kennaraskólum, og gefa þeim próf, sem veitti þeim þann stimpil, að þeir hefðu notið þessarar fræðsln. Háskólaráðið hefir þetta til meðferðar og er till. hlynnt, en vill taka fleira til athugunar en tekið er fram í till., t. d. um það að fá deild við háskólann fyrir búvísindi, verzlunarfræði o. fl. Eins og hv. þm. sjá, þá er aðeins farið fram á, að stj. undirbúi þetta mál. Ég vona, að d. geti fallizt á, að stj. láti rannsaka þetta mál. Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en leyfi mér að óska þess, að málið fái góða afgreiðslu.