06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

1. mál, fjárlög 1932

Sveinbjörn Högnason:

Ég skal ekki vera langorður, því þess er engin þörf, þótt svarað sé ræðum hv. þm. G.-K. og hv. 4. þm. Reykv. Hv. 4. þm. Reykv. lét svo um mælt, að hann ætlaði að taka þann fyrr, sem hann mæti meira. En ef ég gerði slíkan mannamun, þá get ég sagt, að ég tæki þann fyrr, sem ég mæti minna, til þess að ljúka því, sem mér væri ógeðfelldara, fyrst. Hann talaði með sinni venjulegu rökfærslu, sem er svo: „Þú skilur það ekki, en ég skil það“, og sem að öðru leyti er fólgin í því að snúa út úr sitt á hvað. Öllum hv. þdm. er svo kunn rökfærsla hans, að ég þarf ekki að fara lengra út í það að skýra hana.

Hann segir, að ég hafi ráðizt á sig fyrir að mæla með till. En ég hélt, að hv. þm. hefði skilið, að ég taldi það einmitt mjög gott. En það er hann, sem hefir viljað vekja úlfúð í þessu máli. Og hver er það, sem hefir fyrstur leitt asnann inn í herbúðirnar, ef ekki hv. 4. þm. Reykv.? Ég er síður en svo að ráðast á hann fyrir að mæla með till. En það er gert, eins og ég hefi sagt, af misskilningi, en ekki skilningi, eftir því sem hann skýrir sjálfur frá. Og ég tel mjög líklegt, að þessi hv. þm. fylgi oftar réttum málum af misskilningi en skilningi.

Hv. þm. G.-K. ætlaði að ljá flokksbróður sínum stuðning, en ég ætla, að það sé honum bezt, ef hann á annað borð á nokkra sómatilfinningu til, að láta heldur kyrrt liggja að ræða um þetta alræmda Kleppsmál, bæði hér og annarsstaðar, heldur en að vera að ræða um málið og blanda inn í það öllu mögulegu án þess að þar sé nokkurt samband á milli.