06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

1. mál, fjárlög 1932

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Hæstv. forsrh. andmælti í gær till., sem ég og hv. þm. Mýr. eigum á þskj. 194, um eftirgjöf á láni til Mjólkurfél. Mjallar í Borgarfirði, á þeim grundvelli, að það væri ekki rétt að gera Búnaðarbanka Ísl., sem fékk Viðlagasjóð, að skyldu að gefa þetta eftir. Hæstv. forsrh. vildi, að till. hljóðaði upp á það, að Búnaðarbankinn fengi þetta endurgreitt úr ríkissjóði.

Ég hefi nú athugað, hvernig slíkum eftirgjöfum hefir verið hagað síðan Viðlagasjóður rann inn í Búnaðarbankann og séð við athugun á fjárl. fyrir árið 1931 3 till., þar sem ákveðið er að gefa eftir lán úr Viðlagasjóðj, án ávæða um endurgreiðslu af ríkissjóðs hálfu. Þetta hefir komið til framkvæmda á þessu ári, en lögin um Búnaðarbankann voru afgreidd 1929, og má því ætla, að þessi skipti ríkissjóðs og Búnaðarbankans viðvíkjandi Viðlagasjóði hafi verið komin í fullt gildi, þegar þessar till. voru samþ. Ég held því, að þessi till. séu í fullu samræmi við það, sem hv. d. hefir áður álitið í þessu efni.

En hinsvegar, ef hv. d. litist svo, að það færi betur á því, að þetta gengi ekki undir sjóðsdeild Búnaðarbankans, þá hefi ég leyft mér að flytja vatill. á þskj. 217 um að bætt væri aftan við liðinn: „enda greiði ríkissjóður Búnaðarbankanum eftirgjöfina“. Ég vildi, að atkvgr. yrði hagað svo, að hv. þdm. greiði fyrst atkv. um vatill., svo að þeir geti valið um aðferðirnar. Ég held, að till. sé þannig stíluð, að það sé hægt að gera þetta samkv. þingsköpum. Aðalatriðið fyrir okkur flm. er auðvitað það, að till. verði samþ., hver svo sem aðferðin verður, því allt er þetta hvort sem er eign hins opinbera. Ég ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þetta atriði.

Síðan fjvn. hélt fund um till. einstakra þm., sem fyrir lágu, hafa komið fram nokkrar brtt., þ. á m. á þskj. 207 í 2 liðum, önnur frá hv. 2. þm. Rang., en hin frá hæstv. fjmrh. Með þessum till. er allmjög gripið fram í starf og till. fjvn. Það hefir nú verið svo í fjvn., að við höfum í till. okkar hvergi farið fram yfir það, sem forsvaranlegt væri, hvorki um áætlun á tekjuliðum fjárl. né útgjaldaliðum. Þó að svo sé, að áætlun fjárl. er nokkru hærri en stundum hefir verið, þá liggur það í því, að við höfum gert okkur far um að bera saman, hvað útgjöld ríkisins hafa verið samkv. landsreikningunum á undanförnum árum. Ég held því, að það sé ekki nein ástæða til að óttast þessa hækkun, þar sem hún er fyrir neðan það, sem verið hefir. Þess vegna er það, að þegar fram koma till., sem halda opnum leiðum til þess að dregið verði úr verklegum framkvæmdum, þá lít ég svo á, að þar sé gripið fram fyrir hendurnar á fjvn. Og ég verð að segja það, að þar sem þetta kemur fram, þá er ekki hægt að skilja það öðruvísi en þannig, að n. hafi farið ógætilega í áætlunum sínum. En það tel ég alls ekki á rökum byggt. Og það er líka í litlu samræmi við það, sem hæstv. fjmrh. hefir brýnt fyrir hv. þdm., að halda fast við till. n. Ég skil illa samræmið í þessu hjá hæstv. fjmrh., að hann skuli annarsvegar brýna fyrir hv. þdm. að halda fast við till. n., en að hinu leytinu vilja halda opnum leiðum til að grípa til, til þess að draga úr því, sem n. hefir ákveðið til verklegra framkvæmda.

Það leiðir af sjálfu sér, að ef fjárl. eru afgreidd þannig, að áætlunin ekki stenzt, þá verður að draga úr útgjöldunum. Það gæti komið til mála frá sjónarmiði þeirra manna, sem vilja láta gera sérstakar ráðstafanir gagnvart kreppunni, að taka lán til ákveðinna framkvæmda. Það væri ekki óhyggilegt. En það er ekki ástæða út frá þessu séð að grípa fram í till. fjvn. né draga úr þeim. Það verður vitanlega gert, ef þeir, sem með völdin fara, sjá kringumstæður þannig, að ekki er annað hægt að gera.

Þá vil ég koma að brtt. hv. 2. þm. Rang. Hún fer fram á það, að það sem við áætlum til vita, 65 þús. kr., sé því aðeins notað, að fé sé fyrir hendi. Sömuleiðis það, sem ganga á til bryggjugerða, lendingarbóta o. s. frv. Af þessari till. verður það skilið, að allar aðrar framkvæmdir eigi að ganga á undan þessum framkvæmdum. En það undarlega í hans till. er það, að þær eru eingöngu bundnar við framkvæmdir við sjávarsíðuna. Af því fé, sem fjvn. leggur til, að lagt verði til verklegra framkvæmda í landinu, er aðeins 1/6 ætlaður til sjávarsíðunnar. En ef frá er dregin fjárveiting til hafnargerðar á Akranesi, sem ekki heyrir undir klásúlu hv. 2. þm. Rang., þá er það aðeins 1/10 af upphæðinni, sem leggja á til sjávarsíðunnar og hann vill leggja höft á.

Ég skal ekkert leiða getum að því, af hverju sérstaklega er ráðizt á þessa liði, en mér virðist, að sú megi vera ástæðan, að engu af þessu á að verja í hans kjördæmi. (LH: Brúin á Þverá). Brúin á Þverá heyrir ekki undir vitabyggingar. Hv. þm. segir, að þetta eigi að vera svar við till. n. um brúna á Þverá, sem suma hefir hneykslað, að talin hefir verið á Rangárvöllum. Ef hér er um misskilning að ræða, þá á hv. þm. sjálfur sök á því. En ég hygg það engan misskilning. Hann sagði áðan, að hann hefði leitað samsvarandi liða til að setja hömlur á. En ef hann hefir leitað samsvarandi liða, þá hefði hann átt að koma með slíka klásúlu um allt brúarféð. En hann leitar að þessum litlu framkvæmdum við sjávarsíðuna og ræðst á þær, — þetta litla brot, sem n. hefir þangað áætlað til verklegra framkvæmda. Ef hv. þm. er óánægður með þetta, sem kannske er ástæða til, þá lægi nær að koma með till. um að fella niður þessa klásúlu, sem fylgir fjárveitingu til Þverárbrúarinnar, og kannske hann hefði getað talað svo um fyrir n. og hv. d., að hann hefði fengið vilja sinn fram. En það var nú svona, að þegar n. tók að athuga, hvað hún treysti sér að leggja til verklegra framkvæmda, þá leituðumst við við að skipta niður á þær starfsgreinar, sem till. lágu fyrir um frá vega- og vitamálastjóra, og hnitmiðuðum við það, hvað mest gagn gerði og hvar nauðsynin væri brýnust. Og við þá athugun varð það ofan á að áætla til brúargerða 50 þús. kr. Þá kom fram sterk ósk um að brúa Þverá. N. leit á nauðsyn þess máls og bætti því við á þennan lið, þótt það væri í ósamræmi við reglur n. í þessu efni, og þess vegna var þessi klásúla sett. Því að ráðstöfunin á þessu brúarfé var þannig, að ekki var hægt að komast af með minna til endurbóta á gömlum brúm og til að byggja nýjar á vegum, sem verið er að leggja, en koma ekki að gagni, nema þessar brýr séu byggðar í sambandi við þá. — Vænti ég, þegar hv. þm. er búinn að fá þessar upplýsingar, að hann fallist á það að taka till. sína aftur, og snúi sér að því að fá leiðréttingu um Þverárbrúna, en haldi sér ekki fast við þessa till., sem hann hefir dottið ofan á á þennan einkennilega hátt.

Ég held það sé ekki fleira, sem ég hefi ástæðu til að minnast á. Hér hefir mikið verið talað um lóðakaup ríkisins, og ég verð að segja fyrir mitt leyti, að ég tel það ekkert undarlegt; þótt umr. spinnist um það mál. Þar er um að ræða þá langhæstu fjárútlátatill., sem fyrir liggur. Ég þarf ekki að gera mikla grein fyrir atkv. mínu um þennan lið. Þegar áður kom til umr. að kaupa þessar lóðir, sem mun hafa verið 1930, þá var ég á móti því, og ég er það enn. Það hefir ekkert komið fram í umr., sem sanni fyrir mínum leikmannsaugum nauðsyn þess, að ríkið ágirnist þessar lóðir. Ég álít þær eins vel komnar í höndum borgaranna. Það er nú svo, að allar framkvæmdir í þessu landi verða að byggjast á borgurunum, en þar sem þeim er ábótavant um smekk, þar geta stjórnarvöldin gripið inn í. En þó að það opinbera byggi, þá er það háð vilja, smekk og ályktunum sömu sérfræðinganna og einstaklingarnir, og þeim getur alveg eins skjátlazt þótt hið opinbera eigi hlut að máli.

Ég vil ljúka máli mínu með því að beina því til hæstv. forsrh., að á það hefir verið minnzt, að lóðin væri aðgengileg fyrir það, að hægt væri að verja til þessa erfðafjárskatti að upphæð 50 þús. kr. En ég vil leiða athygli hæstv. forsrh. að því, að þessi upphæð er alveg mátuleg til kartöflukjallarans, sem talað hefir verið um.