11.08.1931
Neðri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í D-deild Alþingistíðinda. (1720)

227. mál, skipulag á byggð í sveitum

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Við Alþýðuflokksmenn höfum hreyft því á þingi, að nauðsynlegt sé að koma á föstu skipulagi um byggð í sveitum landsins á svipaðan hátt og í bæjum. Því meir sem hið opinbera lætur framkvæma í bæjum og sveitum, því nauðsynlegra er, að slíkt skipulag fáist. Menn viðurkenna það, að skipulag verður að vera til þess að framkvæmdir, bæði sem einstaklingar og hið opinbera lætur gera, verði þannig, að þær komi óbornum mönnum til gagns. Þetta mál hefir ekki átt mikið fylgi hér á þingi, en úti um sveitir eru ýmsir, sem skilja þetta, og ekki sízt eftir að framfarir hafa orðið þar og fjárveitingar aukizt bæði til ræktunar, símalagninga og vegagerðar o. fl. — Það má búast við því, ef slíkt skipulag fengist, sem við leggjum til, að löggjöfin þyrfti ýmsra leiðréttinga við. Það þarf mikla rannsókn til að koma slíku skipulagi á í sveitum, og þess vegna geri ég ekki ráð fyrir, að hægt sé að skila áliti fyrr en 1933. En við ætlumst til, að í n. séu bæði maður frá Alþýðusambandi Íslands og Búnaðarfélagi Íslands.

Þessu máli hefir verið hreyft við ýms tækifæri af jafnaðarmönnum, bæði utan þings og innan, enda er slík skipulagning ein af meginsetningum jafnaðarstefnunnar. Á síðasta búnaðarþingi var þetta mál tekið fyrir og fékk þar góðar undirtektir. Þá var samþ. svipuð till. og nú liggur fyrir, og þar voru taldar upp sömu ástæðurnar sem við, sem flytjum þetta mál, höfum talið. Ég vona, að till. nái fylgi í d. og verði vísað til 2. umr.