11.08.1931
Neðri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í D-deild Alþingistíðinda. (1721)

227. mál, skipulag á byggð í sveitum

Bernharð Stefánsson:

Ég ætla að vísu ekki að fara út í efni þessa máls að þessu sinni, en vil þó segja það, að ég viðurkenni, að hér er um mjög merkilegt mál að ræða og tel sjálfsagt, að því sé gaumur gefinn. Í afdölum og útnesjum, og reyndar víðar í sveitum landsins, er barátta fólksins fyrir lífinu hörð, en þó vonlítil. Það er því hin fyllsta ástæða til að láta sér detta í hug, að róttækra breytinga sé þörf einmitt í því efni, sem till. fjallar um.

Annars kvaddi ég mér ekki hljóðs til að ræða efni þessa máls nú, heldur vegna þess, að ég tel málið svo merkilegt, að ég vil ekki láta fella þessa till. athugunarlaust, en það tel ég víst, að yrði gert, ef gengið yrði til atkv. um hana nú. Ég legg því til, að málinu verði vísað til landbn., en ég tók ekki eftir, að hv. flm. gerði það.