15.08.1931
Neðri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í D-deild Alþingistíðinda. (1727)

272. mál, björgunarstarf og eftirlit með fiskibátum

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Ég tel víst, að á bak við þessa till. liggi rík þörf þeirra landshluta, sem hlut eiga að máli. En af því að minnzt hefir verið á Þór í sambandi við þetta mál, þykir mér rétt að nota tækifærið og fara um það nokkrum orðum.

Þór hefir, eins og kunnugt er, fram að þessu annazt björgunarstarfsemi við Vestmannaeyjar á vetrarvertíðinni. Þegar gamli Þór strandaði, reis upp ágreiningur um það milli stj. og Vestmannaeyinga, hvort strand gamla Þórs hefði þær afleiðingar, að samningar þeir, sem gilt höfðu áður um landhelgisgæzlu Þórs og björgunarstarfsemi, væru niður fallnir. Stj. tók þá afstöðu, að hún taldi, að svo væri, en þessi hv. d. tók gagnstæða afstöðu með þáltill., er hér var samþ. 1930, þar sem d. féllst á, að Vestmannaeyingar ættu kröfu á að fá ekki lakara skip í staðinn.

Við urðum þess varir um áramótin, að stj. kom til hugar að fara út fyrir takmörk samningsins frá 1926 og þáltill. frá 1930. Þá var nýji Þór kominn og við bjuggumst við, að hann kæmi til okkar án annara skilyrða en 15 þús. kr. úr bæjarsjóði. En 2. jan. komu skeyti frá stj., þar sem hún setur skilyrði fyrir komu Þórs. Þykir mér hlýða að gefa hv. d. upplýsingar um, hver þessi skilyrði voru. Eitt skilyrðið var á þá leið, að Vestmannaeyjabær skuli eftirleiðis greiða fyrir skipið 5000 kr. í lok hvers mánaðar, sem skipið væri við Eyjarnar. Nú er skipið þar fjóra mánuði á ári hverju, og hefði þetta því hækkað gjaldið úr 15 þús. kr. upp í 20 þús. kr. Ennfremur var það skilyrði sett, að ef Vestmannaeyjar gætu ekki staðið í skilum með þessar greiðslur, væri réttur þeirra til skipsins niður fallinn. Eitt skilyrðið var það, að stj. vildi gera Vestmannaeyingum skylt, ef verkfall yrði í Reykjavík, svo tregt yrði um afgreiðslu vatns og kola, að sjá skipinu fyrir hvorutveggja fyrir sama verð og í Reykjavík. — Minnast má á eitt skilyrðið enn, þótt ekki væri það stórvægilegt. Stj. heimtaði dagbækur gamla Þórs frá 1919, þangað til landið keypti hann. Sýnir þetta, þótt smátt sé, vel hugkvæmni stj. í björgunarmálunum.

Bæjarstj. í Vestmannaeyjum svaraði, að sér væri ómögulegt að skuldbinda sig til að láta skipið hafa kol og vatn, ef allsherjarverkfall yrði. Það væri ekki fremur á valdi bæjarstj. í Vestmannaeyjum en ríkisstjórnarinnar. Við buðumst til að verða Þór til liðs á allan þann hátt og við gætum, eins og hann okkur, en meiru gátum við ekki lofað. Hvað snerti hækkunina á greiðslunni var vísað til fyrirmæla þingsins. Um dagbækur Þórs var því svarað, að þær gæti stj. fengið, þegar búið væri að vinna úr þeim. En um þessar mundir var verið að nota þær við samningu sögu gamla Þórs. Stj. setti ekki kröfur sínar fram aftur. Skipið kom til Vestmannaeyja í janúarlok. Hvort drátturinn á komu þess stafaði af því, að við gengum ekki að kröfum stj., eða einhverju öðru, skal ég ósagt láta.

Eins og flm. till. tók fram, hefst vertíðin í Vestmannaeyjum í janúarmánuði. Sá mánuður er þar einna hættulegastur og þörfin því einna brýnust á björgunarskipi þann mánuð. En með því að ég álít, að þörf þeirra héraða, sem till. fjallar um, sé brýn líka, vil ég vænta þess, að hv. d. taki vel í till. Björgunarstarfsemin getur vel átt samleið með landhelgisgæzlu, en samrýmist veiðiskap miklu verr. Ég er sömu skoðunar og hv. flm. um það, að veiðigutl Þórs sé til lítils gagns og stórspilli björgunarstarfi hans og landhelgisvörnum. Skip, sem á að vera í einu veiðiskip, gæzluskip og björgunarskip. verður hvorki fugl né fiskur.

Ég vil, að glögg og greinileg stefna sé þegar tekin í máli þessu, bæði um það atriði, er ég drap síðast á, og fleira, t. d. hvort krefja eigi Vestfirði og Siglufjörð um gjald fyrir björgunarskip, sem þar yrði haft úti fyrir, eins og krafizt er af Vestmannaeyjum, eða hvort gera skal þessum landshlutum mishátt undir höfði. Ég vil því leggja til, að umr. verði frestað og málið fari til sjútvn. til athugunar. Ég legg þetta ekki til af því, að ég vilji á neinn hátt tefja málið, heldur af þeim ástæðum, sem ég nú hefi þegar getið.