04.08.1931
Efri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í D-deild Alþingistíðinda. (1734)

80. mál, leyfi til að reka útvarpsstöð

Flm. (Pétur Magnússon) [óyfirl.]:

Efni þessarar till. er eins og hv. þm. mun vera kunnugt um, að farið er fram á, að þingið skori á stjórnina að hlutast til um að endurnýja leyfi það, sem Arthur Gook var veitt til að reka útvarpsstöð. Ég flutti till. samhljóða þessari á síðasta þingi, og hún kom til umr. einusinni hér í d. og var svo vísað til allshn., en var ekki komin úr n. þegar þingið var rofið. N. hefir sennilega kynnt sér málið nokkuð, en ég get samt sem áður ekki sagt um það, hvaða úrlausn það myndi hafa fengið. Þó að málið sé hv. þm. kunnugt, þá þykir mér þó rétt að gera með nokkrum orðum grein fyrir, hvernig málið er vaxið. En ég skal reyna að þreyta ekki mjög þolinmæði hv. dm.

Eins og hv. dm. er kunnugt og tekið er fram í till., fékk þessi maður, Arthur Gook, leyfi 6. maí 1925 til að setja upp og nota gamanútvarpsstöð á Akureyri með þeim skilyrðum, sem talin eru upp í leyfisbréfinu. Þar var tekið fram, að leyfið væri veitt til óákveðins tíma og að landssímastjóri gæti afturkallað leyfið, ef honum þætti ástæða til. Leyfishafi hefir skýrt frá því í bréfi til stjórnarinnar, að landssímastjóri hafi munnlega tekið það fram við sig, að þetta ákvæði væri aðeins sett í leyfisbréfið sem formsatriði, en þetta kæmi náttúrlega ekki til greina, nema leyfishafi stæði ekki í stöðu sinni. Í 4. gr. er tekið fram, að útvarpsstöðin verði að nota bylgjulengdir, sem landssímastjórinn ákveður, og hann getur látið breyta bylgjulengdunum, ef ástæða þykir til. Bylgjulengdin, sem ákveðið var að nota, var 175–200 m. Að fengnu leyfisbréfinu var hafizt handa með að safna fé, bæði í Englandi og Ameríku. Þegar nægilegt fé þótti fengið, var hafizt handa að reisa stöðina og verkið sjálft var framkvæmt á árunum 1926–1927, og um áramót 1927–1928 var stöðin svo að segja alveg fullgerð, en þá kom í ljós, að rafmagn, sem til hennar var ætlað og tekið var frá rafmagnsveitu Akureyrar, var ónothæft til útvörpunar. Spennan var svo breytileg, að útvörpunin fór öll í handaskolum af þeim ástæðum. Mér er sagt, að til þess að hægt sé að nota rafmagn til útvörpunar, þurfi straumurinn að vera jafn og spennan óbreytileg. Þetta varð til þess, að starfsemin gat ekki byrjað, þegar stöðin var fullgerð. Þá var hafizt handa að nýju með að safna fé til þess að koma upp rafmagnsstöð. 1928–1929 var byrjað á að koma upp rafmagnsstöð. Seint á árinu 1929 var þetta einnig komið í lag, og þá átti útvörpunin að byrja. En þá skeður það, þegar bæði útvarpsstöðin og rafmagnsstöðin voru fullgerðar og starfsemin átti að fara að byrja, að landssímastjóri skrifar leyfishafa og tilkynnir honum, að leyfið sé afturkallað. Aðalástæðan, sem landssímastjóri færði fyrir þessu, var, að dráttur hefði orðið mikill á byggingu stöðvarinnar og að vegna sívaxandi þráðlausra viðskipta hafi orðið að takmarka ölduveitingu og ölduhreyfingu á síðustu tímum.

Ég hefi nú gert nokkra grein fyrir því, hvernig stóð á drættinum, og hann var með öllu eðlilegur, og það var ófyrirsjáanlegt, eða a. m. k. ekki von, að það væri tekið með í reikninginn, að starfsemi stöðvarinnar gæti ekki byrjað, þegar hún væri fullgerð, af þeim ástæðum, að rafmagnið væri ónothæft. Það hefir upplýstst, að til útvörpunar er hægt að nota stuttbylgjur. Þær eru ekki eins fullkomnar, en hafa samskonar þýðingu og langbylgjur, en samt sem áður hefir þessi maður talið sér nægilegt að fá þessar stuttbylgjur og talið sig geta byrjað starfsemina, ef hann fær leyfi til þess að nýju.

Eftir það að þessi afturköllun kom, 2. des. 1929, skrifaði Gook landssímastjóra og ráðuneytinu 10. jan., þar sem hann gerði grein og færði rök fyrir, að hann ætti ekki sök á þessu og sýndi fram á, að nú væri ekkert til fyrirstöðu, að starfsemin gæti byrjað. En þetta var árangurslaust, og virðist það vera af því, að landssímastjóri hafi lagt á móti því, að leyfið yrði endurnýjað, því ráðuneytið hafði gjarnan viljað verða við tilmælunum. Þegar ljóst var, að leyfið fékkst ekki endurnýjað með því að snúa sér beina leið til stjórnarinnar og landssímastjóra, þá átti leyfishafi um tvær leiðir að velja. Það má geta þess, að hann er brezkur ríkisborgari, og gat hann því sjálfsagt valið þá leið að snúa sér til brezku utanríkisstjórnarinnar og beðið hana að taka þetta mál í sínar hendur, og það myndi hún vafalaust hafa gert, þar sem þetta er brezkur þegn, sem hefir lagt fé í þetta fyrirtæki. Þó að þessi leið hefði orðið örugg, vildi Gook ekki fara hana, af því að hann hefir nú dvalið hér svo lengi, að hann telur sig í hjarta sínu frekar Íslending en Englending. Hann kaus því að fara þá leiðina að gera ráðstafanir til að koma málinu á þing og reyna að koma því þannig fyrir á þinginu, að það hefði þau áhrif á stjórnina og landssímastjórann, að þetta leyfi yrði endurnýjað. Ég verð að segja það, að mér finnst þessi aðferð, sem hér hefir verið farin í þessu máli, alveg óverjandi, nema sýnt verði fram á það með rökum, að stöðin sé þannig úr garði gerð, að ekki megi nota hana, vegna þess, að hún geti valdið truflunum í útvörpun annara stöðva.

Ég álít þetta óverjandi framferði yfirvaldanna. Þessum manni er veitt leyfi til þess að setja upp útvarpsstöð. Hann safnar til þessa fé, um 100 þús. kr., og þegar hann eftir mikla erfiðleika loks er búinn að koma þessu fyrirtæki í kring og er tilbúinn til að nota það, þá er hann fyrirvaralaust og án þess að hægt sé að sjá, að gerð sé nægileg grein fyrir því, sviptur leyfinu til að nota stöðina. Óhætt er að fullyrða, að ekki hafa ennþá komið í ljós þeir gallar á byggingu stöðvarinnar, að ekki sé heimilt að nota hana til útvörpunar. En ef það kæmi í ljós, að stöðin væri illa gerð, þá væri náttúrlega heimilt fyrirvaralanst að hefta starfsemi hennar. Ég efast um, að okkur haldist uppi að sýna þá harðneskju, sem gert hefir verið í þessu máli. A. m. k. er verða knúðir fram á sama hátt og hér er farið fram á.

Ég ætlast náttúrlega ekki til þess, að þessi till. verði samþ. á þingi án þess að hún fái rækilega athugun fyrst. Ég vil því leyfa mér að gera að till. minni, að málinu verði vísað til n.; ég teldi réttast, að það færi til allshn. Ég vildi svo að lokum leyfa mér að óska, að umr. verði frestað.