27.07.1931
Efri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í D-deild Alþingistíðinda. (1739)

99. mál, holdsveikraspítali og fávitahæli

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Síðastl. 30–40 ár hefir þjóð vor eignazt margskonar hæli, sem áður voru með öllu óþekkt hér á landi, nema af afspurn annara þjóða: Holdsveikrahæli, geðveikrahæli, berklahæli, elliheimili, barnahæli, og eru nú öll þessi hæli þjóðareign, rekin að meira eða minna leyti af opinberu fé í þarfir hinna bágstöddu.

En þrátt fyrir allar þessar stórstígu framfarir á tiltölulega stuttum tíma, hefir þó einn flokkur manna orðið út undan, — þeirra manna, sem sízt eru færir um að bjarga sér sjálfir, sízt geta borið byrðar lífsins, þar eð þeir voru frá blautu barnsbeini sviptir því að geta „talizt með mönnum“. — Þeir urðu svo tilfinnanlega hart úti. Þeir öðluðust ekki ljós skynseminnar, ekki festu viljans, ekki rök dómgreindarinnar. Þeir hlutu því að berast eins og strá með straumi, líkt og skipsflak á ólgandi hafi.

Í daglegu tali eru þeir kallaðir fábjánar eða hálfvitar. Ég ætla mér að ganga framhjá þeim nöfnum báðum, þar eð bæði orðin, fábjáni og hálfviti, eru orðin hálfgerð skammaryrði í málinu. Ég vil heldur nefna þá einu nafni fávita. Orðið táknar þann, sem fátt veit, en útilokar þó engan veginn alla vitneskju; enda eru fávitar á mjög mismunandi stigi í vitsmunalegu tilliti. Sumir geta haft talsverða skimu og jafnvel allgott vit á vissum sviðum, aðrir virðast þar á móti ekki skynja nokkurn skapaðan hlut; eru þó hvorirtveggja fávitar og þurfa á allt annari meðferð að halda heldur en annað fólk.

Þeir menn, sem mest hafa kynnt sér andlegt ástand þessara manna, hafa skipt þeim í flokka eftir vissum reglum, byggðum á tilraunum, sem gerðar voru til þess að vita, á hvern hátt þeim yrði hjálpað, til þess, ef auðið væri, að gera þá að einhverju leyti að nokkurnveginn sjálfbjarga mönnum, og veita aftur öðrum, sem engin skilyrði áttu til þess, þá hjálp og meðferð, sem heimili einstakra manna geta sjaldnast látið slíkum aumingjum í té.

Áður en ég kem lengra máli mínu, vil ég leyfa mér að fara örfáum orðum um upphaf þeirrar víðtæku starfsemi, sem hófst hér í álfu á ofanverðri síðastl. öld fávitum til hjálpar. Enda þótt þeir hafi vafalaust verið til í öllum löndum og á öllum tímum, þá var þó ekki fyrr farið að hlynna að þeim með hælisstofnunum og annari líknarstarfsemi. Þar áður hafa þeir ekki átt sjö dagana sæla. Margir höfðu trú á því, að fávitar væru eiginlega ekki mennskir menn, heldur umskiptingar úr álfheimum. Yfirleitt höfðu flestir ýmugust á fávitunum og forðuðust þá.

Merkum rithöfundi, enskum hagfræðingi, fórust þannig orð í bók, er hann ritaði í upphafi 19. aldarinnar:

,,Sá, sem kemur að borði náttúrunnar án þess að eiga þar sæti, hann verður að gera sér að góðu að hypja sig frá borðinu“. (Thomas Malthus í „Essay on the principles of population“). Og nú vill einmitt svo til, að veslings fávitinn er flestum fremur í þeim hóp, sem illa gengur að ná sér í sæti við borð náttúrunnar. Þess vegna verða aðrir að hjálpa honum til þess, svo að hann geti einnig, eftir föngum, notið þess, sem þar er framreitt. Og ýmsir mannvinir vöktust upp til þess. Þeir töluðu máli fávitanna og tóku þá að sér, til þess að reyna að finna fyrir þá leiðina út úr andlega myrkrinu, sem þeir voru hnepptir í. Læknar og vísindamenn bættust við hjálparliðið og tóku að rannsaka nákvæmlega andlegt og líkamlegt ástand fávitanna, til þess að reyna að lækna þá. Það mun hafa verið frakkneskur læknir, sem fyrstur manna gerði tilraun til að lækna fávita. Tilraunin var gerð á dreng 11–12 ára gömlum; hann fannst úti í skógi, klæðlaus og líkari villidýri en manni að öllum háttum. Læknirinn tók drenginn að sér, og með 6 ára þolgóðu starfi tókst honum að manna hann allvel, svo að hann varð með öllu óþekkjanlegur og gerbreyttur frá því, sem áður var. — Tilraun þessi og árangur hennar varð til þess að læknirinn, dr. Étard, stofnaði fávitadeild við daufdumbrahælið, sem hann starfaði við í Paris.

Um svipað leyti var stofnað fávitahæli í Sviss. Tildrög þess voru þau, að ungur læknir einn var á ferð um dalabyggðir Svisslands, gekk fram á pilt, sem kraup frammi fyrir krossmarki einu hjá veginum og stautaði faðir vor með miklum erfiðismunum. Þetta var veslings fáviti. Læknirinn kenndi svo mjög í brjósti um hann, að hann ásetti sér að koma honum til hjálpar, og öðrum, sem líkt væri á komið með. Þessi læknir kom á fót fyrsta fávitahælinu í Sviss. Brátt fór mikið orð af hæli þessu, og voru sendir þangað fávitar úr öllum áttum, frá Englandi, Þýzkalandi, Frakklandi. — Þörfin virtist alstaðar vera mikil.

Á Þýzkalandi hófst starfsemin 1840, og voru það einkum prestar og kennarar, sem beittu sér þar fyrir málefninu. Í Danmörku hófst starfsemin um 1845, í Svíþjóð 1860 og í Noregi 1875. Í öllum þessum löndum eru nú mörg fávitahæli, og skipta þeir þúsundum, sem þar hafa notið aðhlynningar og hjálpar með margvíslegu móti.

Brátt kom það í ljós, að það var hvorki hægðarleikur að lækna fávita eða kenna þeim. Það, sem annaðhvort vantar frá náttúrunnar hendi eða fer forgörðum við veikindi í fyrstu bernsku, verður ekki bætt. — En reglubundið uppeldi, nákvæm aðhlynning, gott atlæti ásamt tilsögn, sérstaklega í handavinnu, og hæfilegri vinnu, kemur oft að ótrúlega miklu liði, svo að stundum tekst að glæða hinar veikluðu og vanþroska sálir og líkamsburði; svo að fávitinn verður jafnvel fær um að vinna fyrir sér að töluverðu leyti.

Aftur eru aðrir, sem vér mundum kalla fullkomlega fábjána, sem eru svo vanþroska, að fyrir þá er ekkert hægt að gera, annað en játa þeim líða þolanlega og sjá um, að þeir fari sér ekki að voða eða verði öðrum að meini.

Ég hefi dvalið við reynslu annara þjóða og kynni þeirra af fávitum, en ganga verður að því vísu, að fávitar séu hver öðrum líkir, hverrar þjóðar sem þeir eru. Og alstaðar eru þeir þung byrði heimila sinna.

Ég vil ekki eyða um of tímanum, en vel gæti ég nefnt ýms dæmi þess, og þau sum allátakanleg. Sérstaklega vil ég benda á það, hve afarerfitt er að hafa barn, sem er fáviti, með heilbrigðum börnum. Börnin herma svo að segja allt eftir, illt og gott, enda hefi ég heyrt mæður kvarta undan því, hve erfitt sé að verja hin börnin fyrir slæmum áhrifum fávitans, sem er sífelldum samvistum við systkini sín.

— Fávitar á voru landi eiga sér sína sögu, og eru sumir kaflar hennar allsvartir og benda fullkomlega á brýna þörf á sérstökum hælum, þar sem þeir geti notið meðferðar við þeirra hæfi. Í raun og veru er það skylda þjóðfélagsins að sjá þeim fyrir því.

Að ég nefni holdsveikrasjúkrahúsið í þessu sambandi, er af þeirri ástæðu, að landið á húsið, var gefið það með því skilyrði, að það yrði einungis notað til mannúðarstarfsemi; — til þess hefir það og verið notað í 33 ár. Upphaflega var húsið byggt fyrir 60 manns; nú eru þar aðeins 22 sjúklingar, og enginn hefir bætzt við undanfarin 3–4 ár, svo að útlit er fyrir, að þessi voðaveiki sé rénuð á landi voru. Nú segir það sig sjálft, að húsið er óþarflega stórt fyrir ekki fleiri sjúklinga, enda hefir talsverður hluti hússins verið tekinn til íbúðar fyrir 5-6 fjölskyldur; og þó er sá hluti hússins, sem ætlaður er sjúklingum, mjög rúmgóður, og þarf svo mikla vinnu við daglega hirðingu, að 10 starfsstúlkur hafa meira en nóg að gera, þó vistmennirnir séu ekki fleiri en þetta, og einungis tveir af þeim rúmliggjandi. Ég býst við, að ekkert annað hérlent hæli hafi svo margt starfsfólk í samanburði við vistmenn.

Þar á móti virðist mér þetta stóra og rúmgóða hús gæti verið vel til þess fallið að reka þar þá starfsemi, sem ég ræði hér um. Hún þarf á miklu rúmi að halda, ef vel á að vera. Það þarf að halda á rúmgóðum skólastofum, vinnustofum, sjúkrastofum, leikstofum og einbýlisstofum, fleiri eða færri, fyrir utan daglegu íveruherbergin, svefnstofur, matstofur o. s. frv.

Það kann að þykja undarlegt að tala um skólastofur í sambandi við fávitahæli. En eins og áður er að vikið, þá liggur einmitt töluvert af þeirri líknarstarfsemi, sem innt er af hendi fyrir fávita, í ýmiskonar fræðslu. Í Noregi og fleiri löndum er öllum skólastjórnum lögskipað að gefa skýrslur um öll börn og unglinga frá 8 ára til tvítugs aldurs, og eru síðan þau börn, sem álitin eru hafa þess þörf, ráðin í skóla fyrir vanþroska börn og fávita. Þessi börn hefðu alls ekki getað notið kennslu með öðrum börnum en þeim, sem voru á sama þroskastigi og þau sjálf.

Því miður er ekki hægt að skýra frá tölu fávita hér á landi eftir seinustu manntalsskýrslum, þar eð ekki er búið að vinna úr skýrslunum ennþá, en skýrslur frá 1920 telja þá 101. Búast má við einhverri fjölgun. Að dómi erlendra sérfræðinga er jafnan vantalið á skýrslum þessum, sérstaklega vegna þess, að mörgum foreldrum er óljúft að telja börn sín fávita í opinberum skýrslum, enda þótt aðrir mundu gera það.

Það er eftirtektarvert að líta í skýrslurnar frá 1920 hvað þetta snertir. Þar eru taldir 6 fábjánar yngri en 10 ára, en frá 10–20 ára eru þeir 32. Eru þá sennilega vantalin æðimörg börn yngri en 10 ára. Auk þess hefir orðið fábjáni svo kalda og ákveðna merkingu í málinu, að sízt er það furða, þótt foreldrar kynoki sér við að telja vanþroska börn sín í þeirra hóp.

Í vetur sem leið sendi barnaverndunarnefndin fyrirspurnir til allra hreppsnefndaroddvita landsins viðvíkjandi fávitum. Nefndin leit sem sé svo á, að nauðsyn bæri til þess, að komið sé upp hæli fyrir hálfvita og vanþroska börn, og vildi fá vitneskju um tölu þeirra og hagi. Nefndinni bárust mörg svör, bæði um hálfvita og þá, sem kallaðir eru fábjánar. Svörin báru með sér:

1. Að víðasthvar eru þessir vesalingar til mestu erfiðleika á heimilunum og fyrir hreppsfélögin.

2. Að sótt yrði fljótt um hælisvist fyrir suma þeirra, en þó nokkuð spurt um meðgjöfina að því er aðra snerti.

3. Að sumstaðar eru börn, ýmist „fáein“ eða „þó nokkur“, sem talið er tvísýnt um, hvort nái nokkru sinni fullum þroska, — vafalaust eru þau ekki talin fábjánar á manntalsskýrslunum, en jafnvafalítið er það, að þeim væri hentug fræðsla og uppeldi á góðu hæli fyrir vanþroska börn, og það ætlast ég til, að þetta hæli yrði.

Ég geri ekki ráð fyrir, að hægt verði að hafa karlmenn, konur, unglinga og börn á sama hælinu, sízt til lengdar. Þykir það hvergi góð ráðstöfun, þar sem reynslan er fengin. En sýni það sig, þegar til framkvæmdanna kemur, að aðsókn verði ekki meiri en það, fyrst í stað, að húsið rúmi vel fleiri en konur þær og börn, sem sótt yrði um fyrir, þá er það vitanlega engin frágangssök að reyna að taka þangað karlmenn einnig. Árið 1920 voru 30 karlmenn taldir fábjánar eldri en 20 ára, en þar sem sumir þeirra geta dálítið unnið, þarf varla að ætla svo mörgum hælisvist.

Ráðlegast teldi ég, að sett yrði fávitahæli fyrir karlmenn við geðveikrahælin. Það tíðkast annarsstaðar, t. d. í Svíþjóð og Þýzkalandi, og eru þar þó allmörg fávitahæli.

Eins og fyrr er sagt, gaf Oddfélaga reglan landinu Laugarnessjúkrahúsið með því skilyrði, að þegar hússins þyrfti ekki lengur með fyrir holdsveikrahæli, þá yrði það samt framvegis notað til líknar- eða mannúðarstarfsemi. Hefi ég ástæðu til að ætla, að ekki yrði fyrirstaða hjá gefendunum, og samkomulag fengist um þá breytingu, sem hér er bent á, með því móti vitanlega, að ríkið léti reisa hæli handa holdsveika fólkinu, svo sem og sjálfsagt er.

Það virðist liggja svo í augum uppi, að ódýrara sé að reisa hæli handa 20–30 manns heldur en 60–70, að eigi þarf um það orðum að eyða.

Eðlilega má búast við því, að sjúklingunum á Laugarnesi yrði það mjög óljúft, ef þeir ættu að flytja langt burt þaðan, sem þeir eru nú. Og það má alls ekki verða. Flestir hafa þeir dvalið þar lengi, sumir mestan hluta æfi sinnar. — Staðurinn er þeim því kær. Þar eignuðust þeir skjól í köldum gusti mótlætis síns, og sízt af öllu vildi ég verða til þess með tillögum mínum að hrella þá, bæta við byrði þeirra, sem vissulega er nægilega þung og sár. En mér virðist, að það ætti ekki að þurfa að leita langt eftir góðu og fögru hússtæði handa þeim, það er næsta nóg rúm í Laugarnesi í grennd við spítalann og enginn vandi að fá þar þann stað, sem sjúklingarnir sættu sig við. Þá lægi og hitaleiðsla frá laugunum mjög vel við til þess að hita upp bæði hælin.

Um þessar mundir er talað mikið um atvinnuleysi og atvinnubætur. Fjöldi manna horfir með kvíða fram í tímann, og það er ekki óeðlilegt eins og horfur eru nú. Hér er um verkefni — atvinnubætur — að ræða fyrir allmargar hendur, en — hér er þó fyrst og fremst um aðkallandi mannúðarmál að ræða.

Ég treysti því fastlega, að hv. Alþingi og hæstv. stjórn sýni það með undirtektum sínum og aðgerðum í þessu máli, að lítilmagnar þjóðarinnar eigi þar góða talsmenn og framkvæmdarsama styrktarmenn.