27.07.1931
Efri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í D-deild Alþingistíðinda. (1740)

99. mál, holdsveikraspítali og fávitahæli

Jónas Jónsson:

Ég get verið hv. till.- manni sammála um það, að það er eðlilegt, að farið sé að athuga það, hvort holdsveikraspítalinn eigi að vera áfram það, sem hann hefir verið, eða byggja skuli nýtt hús til þeirra nota. Það er alkunna, að sjúklingatalan er nú ekki orðin nema helmingur þess, sem var upprunalega, og það er nokkuð dýrt að halda slíkan spítala aðeins fyrir þessa sjúklinga.

Það, sem ég segi við þessa umr., verður algerlega almenns eðlis.

Það, sem ég álít einkum athugunarvert við þá hlið þessarar till., sem lýtur að byggingu nýs spítala þarna hjá Laugarnesi, byggist á því, að full ástæða er til, að vona megi, að holdsveikin hér á landi verði horfin eftir svo sem mannsaldur, og ef farið væri að byggja yfir þessa fáu sjúklinga, sem nú eru á Laugarnesi, er ég hræddur um, að það mundi hafa ekki lítinn kostnað í för með sér, því að vitanlega yrði til byggingarinnar vandað svo sem hvers annars spítala og líklega byggt vandað steinhús. Ég vil ennfremur benda á það, að samkv. gjafabréfi spítalans munu það Oddfellowar, sem mestu ráða um það, til hvers húsið verður notað, ef hætt verður að nota það fyrir holdsveika menn, og ég býst við, að þetta taki ekki aðeins til Oddfellowa hér á landi, heldur og í því landi, sem gaf spítalann. Hinsvegar þykist ég vita, að Oddfellowreglan, hvort sem er sú íslenzka eða danska, muni sýna fulla sanngirni við okkur í þessu efni, en þar fyrir er ekki víst, að reglan fallist á hverja þá uppástungu um mannúðlega notkun spítalans, sem við kunnum að koma fram með. Og það má jafnvel alveg eins búast við, að Oddfellowar vilji sjálfir ráða, hvernig um spítalann fer. Ég held, að það væri heppilegra, ef að því ráði væri hnigið að taka spítalann fyrir hæli handa fávitum, og vil ég þó ekki mæla með þeirri leið, að byggja yfir sjúklingana á hveraeignum landsins austur í Ölfusi fremur en gera það hér í nágrenni Reykjavíkur, því að þar austur frá er nægur hiti og hægt að byggja úr ódýru efni, auk þess sem gera má ráð fyrir, að reksturinn verði ekki eins dýr þar. En eins og ég áður sagði, vil ég ekki mæla með, að þessi leið verði farin, því að þar sem fastlega má búast við, að þarna verði reistur spítali fyrir berklaveika og fleiri stofnanir áþekkar, væri ekki gott að hafa þar hættulegan sjúkdóm eins og holdsveiki í nágrenninu.

Hvað hina hliðina snertir, að láta fávitana fá inni í holdsveikraspítalanum, skal ég játa það, að þetta er mál, sem algerlega hefir verið vanrækt til þessa og því er full þörf á, að farið sé að sinna. Eftir því, sem landlækni telst til, eru nú um 150 fávitar á landinu, og eru þeir mikil plága fjölskyldum sínum, svo sem nærri má geta, en á þessu verður ekki bót ráðin, nema með því að byggja fávitahæli. Og þó að holdsveikraspítalinn verði tekinn til þessarar notkunar, rúmar hann ekki nema um helming allra fávita landsins, svo að málið er ekki leyst með þeirri till., enda þótt óneitanlega sé þar um nokkra úrbót að ræða. Hefi ég áður drepið á það í viðtali við eina af n. þessarar d., sem mig minnir, að hv. 6. landsk. hafi átt sæti í, að heppilegt mundi vera að reisa fávitahæli á hverajörðum landsins austur í Ölfusi, en ég hefi einmitt það fyrst og fremst að setja út á þessa till., að ef ríkið tekur að sér rekstur fávitahælis, mundi reksturinn verða miklu dýrari hér en austur í sveitum. Er það einmitt aðalgallinn við hið myndarlega gamalmennahæli, sem hér er, að það var byggt hér í Reykjavík, þar sem dýrtíðin er tilfinnanlegust og gamalmennin geta ekki dregið fram lífið, nema með meiri tilkostnaði en þeim er kleifur eða aðstandendum þeirra flestum hverjum. Held ég, að ég megi fullyrða, að hægt væri að byggja fávitahæli fyrir austan fyrir ekki meira en 1/5 af þeim kostnaði, sem kemur á hvert rúm í vönduðum steinbyggingum, því að þar mætti byggja úr ódýrara efni, eins og timbri. Ef þingið ákveður á annað borð að sinna fávitunum á líkan hátt sem öðrum bágstöddum, held ég því, að vert sé að íhuga, hvort ekki mundi heppilegra að fara þessa leið, sem hefir minni kostnað í för með sér, bæði hvað snertir byggingu hælisins og rekstur, auk þess sem það gæti hugsazt, að fávitarnir gætu að einhverju leyti unnið fyrir sér, ef hælið væri haft austur í sveitum. Með þessu er ég ekki að mæla á móti þessari till., enda mun ég greiða henni atkv., heldur vildi ég aðeins benda á það, að þó að svo færi, að holdsveikraspítalinn hætti að starfa í sínum upphaflega tilgangi, er það ekki viss hagnaður fyrir ríkið að taka hann til afnota í þessu skyni, þar sem ástæða er til að ætla, að rekstrarkostnaður slíkrar stofnunar mundi minni á öðrum stað, en að sjálfsögðu verður spítalinn notaður í einhverjum mannúðlegum tilgangi engu að síður.