27.07.1931
Efri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í D-deild Alþingistíðinda. (1741)

99. mál, holdsveikraspítali og fávitahæli

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Ég get verið þakklát hv. 5. landsk. fyrir hinar vinsamlegu undirtektir hans við þessa till. mína, en verð þó að segja það, að mér leizt ekki á blikuna, þegar hann fór að tala um, að heppilegast mundi ef til vill verða að flytja holdsveika fólkið úr sínum gamla spítala austur í sveitir. Verð ég að treysta því, að til þess ráðs verði ekki tekið. Sjúklingarnir, sem nú eru á Laugarnesi, eru sumir hverjir búnir að vera þar í mörg ár, einn jafnvel í 33 ár; er þeim farið að þykja vænt um sinn gamla spítala, svo sem eðlilegt er, og væri því ómannúðlegt, ef að þessu væri hnigið, og virðist heldur ekki taka því um svo fátt fólk, sérstaklega þar sem fullar vonir eru til, að holdsveikin verði úr sögunni hér hjá okkur eftir svo sem mannsaldur, eins og hv. 5. landsk. tók réttilega fram. Og ég fæ heldur ekki séð, að sú bygging þyrfti að verða ónýt, sem byggð yrði yfir holdsveika fólkið á þessum stað, þegar það þarf hennar ekki lengur við, því að allt bendir til þess, að sá tími muni hafa einhverjar þær þarfir, sem húsið mundi koma að góðum notum fyrir. Hér hefir t. d. verið talað um í dag, hvílík vandræði væru á um meðferð kynferðissjúkra. Væri t. d. ekki ólíklegt, að nota mætti húsið fyrir þá tegund sjúklinga.

Þá minntist hv. 5. landsk. á gamalmennahælið og sagði, að það væri illa sett hér í Reykjavík, þar sem dýrast væri að lifa. Þetta kann að vera, en hv. þm. þekkir þá ekki mikið til á gamalmennahælinu, ef hann veit ekki, að gamla fólkinu mundi sár raun að því, ef hælið væri ekki einmitt hér. Gamla fólkið vill vera hér í Reykjavík engu síður en unga fólkið. Hér á það margt vina og vandamanna, sem það tæki sárt að vera fjarvistum við, hér eru margskonar þægindi, sem ekki er að hafa annarsstaðar, og stuðlar þetta allt að því að gera einstæðingsskap gamla fólksins minni heldur en ef það yrði að kúldast einhversstaðar afsíðis í fjarlægum sveitum. Enda er mér kunnugt um það, að gamla fólkið þakkar sínum sæla fyrir það, að gamalmennahælið skuli einmitt vera hér í höfuðstaðnum. Hinsvegar ber ekki að skilja þessi orð mín svo, að ég hafi neitt á móti því, að byggt verði yfir holdsveika fólkið austur á Reykjatorfu, þar sem er að hafa nægan hverahita, en ég vildi þó leyfa mér að benda á, að í þessu tilfelli er einnig um nægan hita að gera í þessu skyni, þar sem taugarnar eru.