03.08.1931
Neðri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (1754)

56. mál, kartöflukjallari og markaðsskáli

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég, hefi haft aðstöðu til þess að fylgjast með þessu máli sem einn í stj. Búnaðarfél. Ísl. Og það er enginn vafi á því, að hér er um að ræða merkilegt mál, þar sem það hnígur að því að bæta aðstöðu framleiðenda og að draga úr innflutningi.

Ég vil leyfa mér að gera nokkrar aths., af því að ég geri ráð fyrir, að málið gangi fram. Ég held, að það verði erfitt að lifa eftir reglum þeim, sem settar eru í frv. Þar eru nefnilega sett tvö hámörk. Húsið má ekki kosta meira en 50 þús. kr., og það er gott og blessað. En svo er hér annað hámark. Kjallarinn á að vera svo stór, að hann rúmi 10 þús. tn. En okkur er nú öllum kunnugt um það, að áætlanir húsameistaranna standast ekki æfinlega að því er kostnaðinn snertir. Ef báðar þessar takmarkanir eiga að halda sér, þá getur þarna orðið árekstur, sem erfitt gæti orðið að eiga við. Ég býst við, að það gæti komið til athugunar, hvort það ætti að vera alveg fastákveðið eins og stendur í 1. gr. frv., að húsið rúmi 10 þús. tn.

Stj. hefir mikið vald til að ráðstafa þessari byggingu á eftir. En það væri gott að fá sem nánasta grg. frá n. um það, hvernig hún ætlast til, að þetta verði gert, hvort húsið eigi að renta sig, eða hvort það eigi fyrst og fremst að verða til stuðnings fyrir framleiðendur.

Loks vil ég benda á eitt, sem aðallega kom mér til að standa upp. Ég vildi skjóta því til hv. frsm. og flm., hvort ekki mætti gera ráð fyrir þeim möguleika, að fá heimild til að leigja hús í bili með einhverjum útbúnaði í sambandi við það. Ég álít, að hér sé um svo merkilegt mál að ræða, að slæmt væri, ef það strandaði á því, að of einstrengingslega væri frá því gengið. Það er ekkert því til fyrirstöðu að leigja kjallara til þess að koma þessu af stað.