06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

1. mál, fjárlög 1932

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Mér þykir leitt að þurfa að hryggja minn góða vin, hv. 1. þm. Rang., með því að taka það fram, að ég hefi ekki dregið neitt inn af því, sem ég hefi sagt.

Þá ætla ég að leiðrétta það, sem hv. 2. þm. Rang. sagði. Hann hélt því fram, að ég hefði byggt ræðu mína á því, hverju sjúkdómur þessa manns væri að kenna, sem nú væri kominn í svo mikla neyð.

Ég veit ekki, hvernig hv. þm. hefir getað fengið þetta út úr ræðu minni. En hann hélt þessu fram með slíkum sannfæringarkrafti, eins og hann héldi, að hann væri heimsmeistari í skilningi. Ég talaði aðeins um það, hvers vegna sjúkrakostnaður þessa manns væri orðinn svo mikill, að leita þyrfti til hins opinbera um hjálp. Hann sagðist ekkert samband sjá á milli þessarar till. og þeirra ráðstafana, að reka lækninn frá spítalanum. En það er einmitt aðalástæðan. Án þess hefðu engin vandræði orðið lít af þessum manni.

Um síðari ræðu þessa hv. þm. er það að segja, að þar skildi ég ekkert hvað hann fór. Þetta getur verið að kenna skilningsleysi mínu. En það er kannske með hann eins og fleiri af þessum hágáfuðu mönnum, að þeir hafa svo stóra sál, að hún kemst ekki út um munninn á þeim.

Hv. þm. talaði um rökvísi. Ég veit ekki, hvort honum ferst að tala um rökvísi, þegar hann eys yfir mig ókvæðisorðum, þegar ég er að mæla með till. hans af hógværð og rökum.