21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í C-deild Alþingistíðinda. (1773)

56. mál, kartöflukjallari og markaðsskáli

Jón Baldvinsson:

Ég hefi komið fram með brtt. eins og ég talaði um við 2. umr., og er hún í samræmi við það, sem fram kom hjá n. Í brtt. er falin heimild fyrir stj. til þess að taka húsnæði á leigu og að fresta því að byggja hús fyrir kartöflur og grænmeti þangað til 1934. Það sýnist sem sé, að þjóðleikhússkjallarinn sé hæfilegur fyrir kartöflugeymslu. Það er ekki líklegt, að þessi bygging verði reist á næstu árum og tekin til þeirra afnota, sem ætlað er, og það er jafnvel óvíst, að nokkurntíma verði fullbyggt þjóðleikhús á þessum stað. Og þó svo tækist til, að ríkisstj. kæmist ekki að samkomulagi við nefndina, sem hefir yfirstjórn þjóðleikhússins, þá er henni enn heimilt samkv. brtt. að taka annað hús á leigu í því skyni, sem um getur í frv. Mér þykir ekki þurfa að koma fram með frekari ástæður fyrir brtt. Þess má hinsvegar geta, að samkv. frv. er ríkisstj. heimilt að verja 50 þús. kr. til að reisa þessa byggingu, og eftir hljóðinu í hv. þm. að dæma, er full þörf á að fresta þeim framkvæmdum, sem ekki eru alveg bráðnauðsynlegar. Og nú er það sýnt, að það er hægt að ná tilganginum, sem felst í þessu frv., án þess að byggja hús í bráðina. — Ég ætla svo ekki að ræða frekar um þetta, nema ef þörf gerist.