21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (1777)

56. mál, kartöflukjallari og markaðsskáli

Jakob Möller:

Það, sem hv. 2. landsk. var að beina til mín, var á misskilningi byggt. Ég var ekki að halda því fram, að það væri óvirðulegt, þó kjallarinn væri leigður undir kartöflur. Ég var að gera mér það upp, að ástæðan hjá hv. 2. landsk. til að bera fram till. væri sú, að óvirða kjallarann. Mér fannst till. kjánaleg og ég varð því að leita að kjánalegri ástæðu fyrir henni, og fann hana. Till. er þannig, að það liggur beinast við að finna upp einhverja kjánalega ástæðu fyrir henni.

En ríkisstj. þarf ekki að vera að leigja hús í þessu skyni. Því gætu ekki þeir menn, sem hér eiga hlut að máli, sjálfir leigt hús, ef ríkisstj. vill ekki ráðast í þessa framkvæmd? Tilgangur frv. er sá, að ríkisstj. láti byggja hús í þessu skyni. Auðvitað verða kartöflueigendur að leigja húsið, þó ríkið byggi.

Hv. þm. er að amast við því, að þetta verk verði framkvæmt, og þó á hér ekki að byggja nema fyrir 50 þús. kr. En hv. þm. hefir verið að bera fram till., sem fóru fram á þetta 200–300 þús. kr. framlag úr ríkissjóði. Þetta, sem hér er um að ræða, er ¼ eða 1/6 af því. En það gæti alltaf orðið dálítil bót að þessari framkvæmd fyrir atvinnulausa menn í bænum. Mér finnst, að þetta sé þveröfugt við aðra framkomu þessa hv. þm. í atvinnuleysismálunum. Um það, að hafa markaðsskála ofan á leikhúskjallaranum, er það að segja, að það getur ekki orðið fyrst um sinn, eða ekki á meðan er verið að byggja hæðina.