22.08.1931
Neðri deild: 36. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

27. mál, einkasala á síld

Bernharð Stefánsson:

Ég hefi leyft mér að flytja brtt. á þskj. 411 við þetta frv., þess efnis, að heimili og varnarþing síldareinkasölunnar skuli vera á Siglufirði, en ekki á Akureyri, eins og nú er. Bar ég fram samskonar till. á þinginu 1929, þegar þessi 1. voru sett, og þóttist hafa sýnt fram á það þá, að eðlilegra væri í alla staði að hafa heimili og varnarþing einkasölunnar á þessum stað, enda vita allir, að Siglufjörður er miðstöð síldarútgerðarinnar. Þar sem nú hinsvegar er komið að þingslitum, og þetta mál á eftir að ganga í gegnum hv. Ed., en svo gæti farið, að þessi brtt. mín tefði fyrir framgangi málsins á þessu þingi, þó að ekki sé hún stórvægileg, mun ég taka hana aftur að þessu sinni, af því að ég álít, að í þessu frv. felist allmiklar umbætur á núv. fyrirkomulagi einkasölunnar, og ég vil ekki eiga sök á því, að þær farist fyrir á þessu þingi. En eigi ég sæti á næsta þingi, er eins víst, að ég mun bera fram frv. til l. um breyt. á þessu atriði.