22.08.1931
Neðri deild: 36. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

27. mál, einkasala á síld

Jóhann Jósefsson:

Mér láðist að hnekkja einu atriði í ræðu hv. 3. þm. Reykv. við 2. umr. þessa máls, um leið og ég rak hið annað ofan í hann, sem hann hafði haldið fram í þessu máli og sótt í smiðju til utanþingsmanns nokkurs, er staddur var við dyragætt deildarinnar meðan umr. fóru fram, sami maðurinn og um eitt skeið var stjórnandi síldareinkasölunnar og látið hefir þar eftir þann orðstír, er áður lýsti ég. Alla sína vizku í þessu máli sótti hv. 3. þm. Reykv. í þennan fyrrv. starfsmann síldareinkasölunnar.

Þetta atriði snerti útgerð konsúls Elvins frá Finnlandi hér við land. Vildi hv. 3. þm. Reykv. ekki viðurkenna, að það væri fyrir mistök einkasölunnar, að Finnar hefðu ráðizt í stórútgerð hér við land, og sótti hann þetta sem annað til áðurnefnds utanþingsmanns, sem líklegt er, að talið hafi sig sakbitinn, er ég gat um viðskipti hans við Finnana. Nú var einkasalan byrjuð að selja síld til Finnlands og sú sala á góðri leið, en fyrir áeggjan sænskra stórkaupmanna fór einkasalan að verða tregari í samningum við Finna, og leiddi þetta til þess, að þeir fóru að reyna að bjarga sér sjálfir, til þess að losna við þá álagningu, sem milliliðir einkasölunnar í Svíþjóð tóku af síldinni. Því verður ekki hrundið, að sú staðreynd, að Finnar eru farnir að reka síldarútgerð hér við land, á m. a. rætur sínar að rekja til stj. einkasölunnar, eins og fleiri misbrestir á sviði síldarmálanna.