06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

1. mál, fjárlög 1932

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Það er nú ekki nema örlítið, sem ég hefi ástæðu til að bæta við það, sem ég sagði áðan, enda hefi ég ekki yfir að ráða nema lítilli aths.

Ég þarf ekki að ræða mikið um þessa eftirgjöf til Mjólkurfél. Mjallar. Málið liggur þannig fyrir, að til eru tvær leiðir í þessu efni. En ég vil aðeins út af ummælum hæstv. forsrh. benda á það, að ef Búnaðarbankanum hefir verið afhentur Viðlagasjóður á síðastl. ári, þá hefði tæplega verið hægt, að því er mér virðist, að draga frá þessa eftirgjöf, af því að samkv. fjárl. var ekki hægt að gera þetta fyrr en eftir áramótin síðustu. En út af því, sem hæstv. ráðh. var að tala um, að það væri e. t. v. réttara að láta þetta bíða til vetrarþings, af því að til stæðu samningar milli nýja fél. og gamla fél., þá sé ég ekki minnsta samband á milli þessarar till. og þeirra samninga, sem þarna kunna að takast. Því að þessi till. er aðeins miðuð við þá fyrri eigendur þessa félags; hins má fullkomlega vænta, að það nýja fél., sem byggt er á rústum hins eldra, njóti stuðnings þess opinbera, eins og ákvæði fjárl. gera ráð fyrir. Ég sé ekki nokkra ástæðu til að láta málið bíða aðgerða næsta þings, en tel rétt að taka ákvörðun um það nú þegar.

Hæstv. forsrh. vildi eiginlega ekki ganga inn á það, að hann með sínum till. um verklegar framkvæmdir væri að grípa fram í fyrir fjvn. Þetta er þó óneitanlega svo. A. m. k. í allmörg ár hafa ekki komið fram neinar till. um það að setja slík höft á fjárveitingar til verklegra framkvæmda. Svo að þessa till. er þess vegna ekki hægt að skilja öðruvísi en svo, að nú muni stefnt til útgjalda í þessu efni með meiri varfærni heldur en verið hefir á undanförnum þingum, þegar engar slíkar till. hafa komið fram. En ef á að bera þetta undir fjvn. á næsta þingi, þá virðist mér þessi till. með öllu þýðingarlaus. Vitanlega liggur þetta undir ákvörðun næsta þings, hvort sem slík till. er samþ. eða ekki, ef stj. vill bera það undir þingið, auk þess sem þingið hefir alltaf á sínu valdi að grípa þarna fram i, ef það finnur ástæðu til. En þessa varfærni hjá hæstv. ráðh. má auðvitað taka sem bendingu um það, að hann ætlist til, að hin nýja stj. sýni meiri varfærni en stjórnin sýndi á síðasta kjörtímabili. Því að ég get ekki litið svo á þessar till., að hann vilji setja hömlur á framlög til verklegra framkvæmda, svo að hann hafi þá ennþá fríari hendur til þess að ráða því fé, sem fer í ríkissj., þó að vitanlegt sé, að fordæmi hæstv. ríkisstj. á undanförnum árum gefi fullkomlega tilefni til að ætla það.

Út af orðum hv. 2. þm. Rang., að mér hafi orðið þungt fyrir brjósti út af þessum till. hans, þá er það síður en svo. Því að ég veit það, að slík till. sem þessi, að setja inn nýja klásúlu og miða henni á þessar verklegu framkvæmdir við sjávarsíðuna, fær verðugar viðtökur hjá hv. d., því að henni dettur ekki í hug að gera þessa undantekningu. Hinsvegar var það, að ég vildi henda hv. þm. á að athuga, hvort hann vildi ekki taka till. aftur. Hefir hann ekki orðið við þeirri bendingu, en nógar eru leiðir til að koma slíkri till. fyrir kattarnef. En maður sér á þessu víðsýni og eiginlegt sálarástand þessa hv. þm. Það endurspeglar sig mjög vel og greinilega í þessari till. og miklu betur en af orðum, sem flutu af vörum hans hér í hv. deild.