07.08.1931
Efri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í C-deild Alþingistíðinda. (1814)

15. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o.fl.

Jón Baldvinsson:

Mér finnst ekki nema eðlilegt, að þeim hv. dm., sem setið hafa ár eftir ár undir umr. um þetta mál, sé nú farið að leiðast að hlusta á umr. um það.

Það, sem hv. minni hl. allshn. bar nú fram á móti frv., var það sama og hann færði fram gegn því á síðasta þingi. Í fyrsta lagi sagði hv. þm., að í 63. gr. stjskr. væru ákvæði, er gerðu þetta frv. óþarft. En þar ber að aðgæta, að eignarnám verða ekki tekin, nema því aðeins, að Alþingi heimili það með sérstökum lögum, og getur það auðvitað ekki orðið á öðrum tíma en þingtímanum, og eru þetta því mjög þröng ákvæði. Það er vitanlegt, að oft getur staðið svo á, að kaupin þurfi að fara fram á öðrum tíma. Bæjarstjórnir og hreppsnefndir koma saman a. m. k. tvisvar í mánuði, og nefndir þeirra oftar, og hafa þess vegna miklu betri aðstöðu til þess að fylgjast með í þessum efnum.

Ég vil benda á eina sterka stoð, er hnígur undir þessa skoðun, nefnilega þá, að stóreign á Akureyri var seld án vitundar bæjarstjórnarinnar, sem hafði viljað tryggja bænum þessa eign, en ekki vissi, þegar eignin var til sölu. Frv. myndi tryggja það, að slíkt þyrfti ekki að koma fyrir í framtíðinni. Ennfremur myndu ákvæði frv. gera það að verkum, að minna yrði spekúlerað með lóðir og aðrar eignir heldur en nú er gert.

Þá gæti þessi löggjöf einnig orðið til þess að draga mjög mikið úr dýrtíðinni í Reykjavík. Ætti bærinn allar þær lóðir, sem hann er byggður á, þá myndi það ekki lengur koma fyrir, að ferm. væri seldur á 500 kr., eins og átt hefir sér stað hér í bænum.

Þá talaði hv. 4. landsk. um að lögin myndu verða misnotuð. Það er svo farið um flestöll lög, að hægt er að misnota þau. Er ég hræddur um, að sú stétt, sem hv. 4. landsk. heyrir til, bæri lítið úr býtum, ef engir gerðust brotlegir við lögin. Alþingi skirrist yfirleitt ekki við að setja nýjar reglur og nýja löggjöf, þótt það viti, að lögin kunni að vera misnotuð, því að við því er auðvitað ekkert hægt að gera. Þetta er því ekki gild ástæða móti frv.

Ég vil svo að endingu þakka hv. meiri hl. n. fyrir góða afgreiðslu þessa máls.