07.08.1931
Efri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (1816)

15. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o.fl.

Pétur Magnússon:

Út af því, sem hv. 2. landsk. sagði um sölu á eign Höepfnersverzlunar á Akureyri, verð ég að segja það, að það er ákaflega ótrúlegt, að hv. þm. sé svo ókunnugur því máli, að hann haldi, að Akureyrarbær hefði fengið þá eign fyrir það verð, sem hún var seld fyrir. Og ég trúi ekki, að hv. þm. haldi það. Hann er þá lítið kunnugur þessu máli. (JBald: Hefði verðið orðið hærra, ef hún hefði verið boðin bænum?). Já, miklu hærra. Og þannig mun þetta alltaf verða. Menn vilja græða á því, ef sá, sem forkaupsrétt hefir, gengur inn í kaup. Það hefir oft reynzt ómögulegt að fá menn ofan af því, að bjóða ekki þeim, sem forkaupsrétt hafa, eignir fyrir hærra verð en þeir geta annars fengið fyrir þær, jafnvel þó þeim sé bent á, að þetta geti orðið alvarlegt fyrir þá, ef það komist upp.

Þá vil ég benda hv. þm. á það, að það er mikill misskilningur hjá honum, ef hann heldur, að það séu engin mótmæli gegn lagasetningu, að hætta sé á misnotkun hennar. Það eru einmitt ákaflega sterk mótmæli, ef hættan á misnotkun er þannig, að ekki er hægt að koma í veg fyrir hana af ríkisvaldinu.

Og hér er einmitt ákaflega sterk hvöt eða freisting fyrir menn til misnotkunar, og það er ekki mögulegi að koma í veg fyrir hana. Því þó einhver bjóði forkaupsréttarhafa eign við hærra verði en hann getur selt hana öðrum, þá er ekki hægt að sanna það. Sá, sem býður, sér um að láta ekki hinn hafa nein sönnunargögn í hendur. Þetta er því principielt alveg rangt hjá hv. þm., að setja lög, sem maður sér fram á, að verða misnotuð, svo framarlega sem ríkisvaldið sér sér ekki fært að koma í veg fyrir þá misnotkun.