07.08.1931
Efri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í C-deild Alþingistíðinda. (1818)

15. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o.fl.

Jón Baldvinsson:

Það eru vitanlega engin lög til, sem ekki eru brotin, og það eru engin lög sett til þess, að þau verði misnotuð. En hitt hræðir hvorki. mig né aðra frá því að samþ. þetta frv., þó möguleikar séu til að brjóta lögin. Það er yfirleitt svo með öll lög. Og þetta veit þessi hv. þm. öllum mönnum betur í þessari hv. d., því væri það ekki gert, þá yrði sennilega rýr atvinna hjá hans stétt, sem, eins og vitanlegt er, byggist á því, að lög séu brotin.

Viðvíkjandi sölu á Akureyrareignunum, þá held ég, að það sé fullyrðing út í loftið, að Akureyrarbær hefði alls ekki getað fengið þær fyrir sama verð og þær hefðu verið seldar fyrir á sama tíma. Þeir, sem fást við kaup og sölu, eru þó vanir að segja, að krónurnar séu jafngóðar, hvaðan sem þær koma, og býst ég við, að það hefði ekki síður gilt í þessu tilfelli en öðrum. Þetta er svo hjákátlega vitlaust hjá hv. þm., að það opinbera hljóti að verða að kaupa dýrara en einstaklingar. En þrátt fyrir það, þó að bæjar- og sveitarfélög yrðu að borga meira en aðrir, er þeim það nauðsynlegt að eignast löndin, sem liggja að höfnum, til tryggingar atvinnurekstri íbúanna. M. a. hefir þetta haft stóra þýðingu fyrir Ísafjarðarkaupstað, að hann hefir tryggt sér mikið af eignum í kaupstaðnum og fyrir utan hann, sem bæði er hægt að nota til atvinnurekstrar og til atvinnubóta. En það er nú ekki alstaðar gert eins mikið og á Ísafirði að því að kaupa eignir. En hér er vegur til umbóta, því þetta frv. á að veita bæjarstjórnum rétt til að ganga inn í kaup, þegar þær eignir eru seldar, sem bæjunum er nauðsynlegt að fá.