11.08.1931
Neðri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

132. mál, hýsing prestssetra

Guðbrandur Ísberg [óyfirl.]:

Ég hefi ásamt hv. 1. þm. S.-M. leyft mér að bera hér fram brtt. á þskj. 259, og eru þær einkum við 2. og 7. gr. frv.

Ég ætla fyrst að víkja að 7. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir, að prestur annist framkvæmd verksins, nema ráðh. feli það öðrum. Ég veit ekki betur en að það hafi verið venja undanfarið, og ég tel það góða venju, að bjóða út byggingu húsa. og ég sé enga ástæðu til þess að bregða frá þeirri venju um opinberar byggingar. Ég get heldur ekki séð, að prestar séu öðrum hæfari til þess að hafa slíkar framkvæmdir með höndum. Ég álít miklu frekar, að prestar séu bændum óhæfari til þess, einkum þar sem þeir eru óstöðugir við heimili sín og eiga því erfitt með að fylgjast með verkinu.

Í brtt. á þskj. 259 er gert ráð fyrir því, að verkið sé boðið út með 6 mánaða fyrirvara a. m. k. Verður varla litið svo á, að það sé of langur tími. Ég hefi veitt því eftirtekt, að nú upp á síðkastið eru bændur til sveita farnir að bjóða út byggingar og spara með því töluvert fé, og á Akureyri er það orðin föst venja að gera það. Það er nú líka svo, að þeir, sem vanir eru að standa fyrir byggingum, eiga hægra með að koma þeim upp fyrir lágt verð en aðrir. Ég held því, að þessi breyt. sé nauðsynleg og sjálfsögð og muni spara bæði ríkissjóði og presti töluvert fé.

Þá er brtt. við 2. gr. Í frv. er gert ráð fyrir, að ekki megi veita hærri styrk til eins íbúðarhúss en 18000 kr. og ekki lægri en 15000 kr. Þetta þykir mér undarlegt ákvæði. Margir bændur hafa á síðari árum komið upp myndarlegum byggingum handa sér og fjölskyldu sinni fyrir 15–20 þús. kr. Ég álít, að þetta séu stærri byggingar en prestar þurfi, því þó að maður geri ráð fyrir, að prestar þurfi einu herbergi fleira en bændur almennt, munu þeir ekki reka svo mikinn búskap, að þeir þurfi eins mikið húsrúm sem bændur. Ég vil í þessu sambandi minna á, að nokkrir bændur hafa byggt hús með það fyrir augum að stækka þau síðar. En vegna þeirra stefnubreytinga, sem nú eru að gerast, hefir það sýnt sig, að slíkra endurbóta hefir ekki orðið þörf. Þess er og að gæta, að prestar munu yfirleitt hafa fátt fólk á vetrum. En þótt þeir hafi nokkru fleira fólk á sumrin, þarf ekki að gera stór hús þess vegna, því það er ódýrt og hagkvæmt að gera þá sumarskála fyrir verkafólkið. Væru þeir því eins góðir og venjuleg íbúðarhús. Þessa skála mætti svo nota til verkfærageymslu á vetrum.

Ég hygg, að íbúðarhús á prestssetrum í sveitum megi víðast gera fyrir 18000 kr. En sé mjög erfitt um aðdrætti, getur byggingarkostnaðurinn orðið töluvert meiri. En þá vil ég spyrja: Hvers vegna á að veita einum presti 18000 kr. styrk, sem er fyrir allan byggingarkostnaðinn, en aðrir fá ekki allan byggingarkostnaðinn vegna þess að þeir eiga öðrum erfiðara með að afla efnis og byggingin verður því dýr. Þá geta byggingar á afskekktum stöðum orðið óeðlilega dýrar vegna þess að ekki er hægt að koma þar við þeim tækjum við vinnuna, sem venjuleg eru. Ég hefi því gert það að till. minni, að styrkurinn sé ákveðinn allt að byggingarkostnaðar.

Ég geri ráð fyrir því, að aðalreglan verði sú, að styrkurinn sé 2/3 byggingarkostnaðar, en ég álít rétt að hafa þá leið opna að draga af styrknum þegar sérstaklega stendur á.

Ég geri ráð fyrir, að húsin verði gerð eftir uppdrætti og áætlun frá einhverri stofnun, sem það verk væri ætlað. En svo getur farið, að prestur óski eftir því að gera einhverjar breytingar við uppdráttinn, er telja megi ónauðsynlegar, en geta haft kostnað í för með sér. Þótt prestinum væri ekki synjað um þetta, ætti ekki að hækka styrkinn fyrir því. Styrkurinn yrði þá 2/3 byggingarkostnaður, eins og hann hefði orðið, ef byggt hefði verið eftir upphaflega uppdrættinum, en prestinum væri þá heimilað lán svo að hann geti fengið óskir sínar uppfylltar.

Þá er hér brtt. við 6. gr. Er þar farið fram á, að niður falli orðin „ófullnægjandi kostnaðaráætlun“. Í gr. er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður greiði helming þess, sem húsið hefir farið fram úr áætlun vegna ófullnægjandi kostnaðaráætlunar eða verðlágsbreytingar á vinnu eða efni verði um kennt. Mér er ekki vel ljóst, hvað átt er við með ófullnægjandi kostnaðaráætlun. Ef einhvern lið vantar í kostnaðaráætlunina eða kostnaður fer fram úr áætlun, ætti það ekki að verða prestinum til tjóns, verði honum ekki um kennt. Til þess að taka af allan vafa í þessu efni legg ég því til, að þetta sé fellt niður.