11.08.1931
Neðri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

132. mál, hýsing prestssetra

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Þessar brtt. á þskj. 259 geta að sumu leyti haft eitthvað til síns máls, en ekki virðast þær mér til bóta, heldur raska þær grundvelli frv., ef þær verða samþ.

Í 1. brtt. er gert ráð fyrir, að veita megi allt að 18000 kr. styrk til hvers húss, en þó ekki yfir 2/3 kostnaðarverðs. En samkv. 3. gr. má þá ekki veita hærra lán en 8000 kr. Hér er því ósamræmi á milli og verður að breyta 3. gr., verði þessi brtt. samþ.

Hv. þm. Ak. sagðist ekki skilja, hvað átt væri við með „ófullnægjandi kostnaðaráætlun“ í 6. gr. Það getur oft komið fyrir, að einhver liður gleymist á kostnaðaráætlun eða kostnaður fari fram úr því, sem áætlað er. En það er ósamræmi að minnka rétt prestsins til þess að hafa eftirlit með byggingunni um leið og hert er á ábyrgð hans á því, sem kostnaðurinn fer fram úr áætlun. Því samkv. 3. brtt., sem er við 7. gr., er presturinn sviptur allri íhlutun um það, hvernig verkið sé unnið. En það virðist ósanngjarnt að leggja nokkra fjárhagslega áhættu á hann, þegar hann hefir enga aðstöðu til þess að hafa áhrif á framkvæmd verksins. Og ég lít svo á, að prestar geti oft fengið ódýran vinnukraft og sætt hentugri tíma en ef verkið er unnið í ákvæðisvinnu.

Samkv. 10. gr. frv. skulu umsóknir um styrk og lán til íbúðarhúsa á prestssetrum komnar til ráðuneytisins eigi síðar en í maímánuði árið áður en byggja skal, og svar ráðuneytisins skal sent presti eigi síðar en 1. sept. sama ár. Það er því tryggt, að prestur hafi nægan tíma til þess að undirbúa bygginguna, svo að hún geti orðið sem haganlegast framkvæmd. En samkv. brtt. þeirra hv. þm. Ak. og hv. 1. þm. S.-M. á að taka allan íhlutunarrétt af prestum um það, hvort byggt sé dýrt eða ódýrt, praktiskt eða ópraktiskt.