11.08.1931
Neðri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

132. mál, hýsing prestssetra

Guðbrandur Ísberg [óyfirl]:

Ég get ekki séð, að brtt. okkar hv. 1. þm. S.-M. við 2. gr. sé í neinu ósamræmi við 3. gr. Við getum hugsað okkur, að íbúðarhús á prestssetri kosti 27000 kr. Styrkurinn yrði þá í hæsta lagi 18000 kr. og lán úr kirkjujarðasjóði í hæsta lagi 8000 kr. Það, sem á vantaði, yrði þá presturinn að borga úr eigin vasa.

Viðvíkjandi brtt við 6. gr. skal ég geta þess, að mér láðist að taka eitt orð upp í brtt. Hún ætti að réttu lagi að vera: ófullnægjandi kostnaðaráætlun eða“. Ég veit ekki, hvort hæstv. forseti sér sér fært að bera hana þannig upp.

Viðvíkjandi brtt. við 7. gr. vil ég taka það fram, að mér finnst sjálfsagt að bjóða þessi hús út. Þar með er ekki sagt, að það fáist alltaf aðgengileg tilboð. Má vel vera, að í afskekktum sveitum fáist ekki tilboð, sem ráðh. getur gengið að, og búast má við, að prestur geti framkvæmt verkið svo, að það verði ódýrara en annars. Þá getur verið, að sá, sem gerir lægst tilboð, sé ekki starfanum vaxinn. Undir slíkum kringumstæðum stæði presturinn náttúrlega næstur með að framkvæma verkið, ef hann óskaði þess. En hverjum sem framkvæmd verksins verður falin, hefir hið opinbera alltaf einhvern trúnaðarmann við verkið. Annars skil ég ekki í því, að prestar sækist eftir því að hafa þessar framkvæmdir með höndum.

Þá er það ekki rétt hjá hv. 2. þm. Rang., að prestar séu með þessu sviptir íhlutunarrétti um það, hvernig byggingin verði. Þeir geta athugað uppdráttinn og gert þær till., sem þeir óska.

Ég vil undirstrika það, að aðstöðumunurinn einn getur gert það að verkum, að einn prestur af tveimur fái styrk sem svarar öllum byggingarkostnaði, en annar prestur verði að taka 5–6 þús. kr. lán, vegna þess eins, að hann á erfiðara með að afla efniviðar. En ef hinn verður að taka lán, 5–6 þús. kr., t. d. við það að erfiðari aðstaða er til að afla innlends efnis, þá gengur mín till. beint í þá átt að jafna það misrétti, sem þannig myndi koma fram, og sem ég vona, að hv. þdm. skilji.