11.08.1931
Neðri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (1842)

132. mál, hýsing prestssetra

Jónas Þorbergsson:

Ég get fallizt á, að 1. brtt. á þskj. 259 geti verið réttmæt og til bóta. Það er rétt fram tekið hjá hv. flm., að það er ekki réttlátt að einskorða styrkinn milli hámarks og lágmarks, þar sem aðstöðumunur getur verið mikill.

Aftur á móti tel ég, að brtt. við 6. gr. sé varasöm. Eins og 6. gr. ber með sér, er undirbúningur slíkra bygginga þannig hugsaður, að ráðh. feli byggingarfróðum mönnum að athuga aðstöðu og skilyrði til húsagerðarinnar og húsameistari geri síðan áætlun um verkið, byggða að nokkru leyti á þessum athugunum, sem stundum yrðu gerðar af öðrum en honum sjálfum. Nú er það algengt, að áætlanir verkfræðinga standast ekki, og stafar það meðfram af því, að áætlanir byggjast einkum á verðlagi aðkeyptrar vöru og kaupgjaldi á hverri tíð. En við þessar áætlanir er byggingarstyrkurinn miðaður. Í kirkjumálan. var mikið rætt um það, hvernig unnt yrði að tryggja prestinn fyrir þeim kostnaði, sem beint stafar af ófullnægjandi kostnaðaráætlun og breytingum, sem verða kynnu frá því áætlun er gerð og þangað til verkið er framkvæmt. Ófullnægjandi kostnaðaráætlun er ekki annað en útskýring á því, sem síðar er tekið fram í greininni. Þetta mál var vel athugað í kirkjumálan. og ég verð að álíta, að þetta atriði hafi fengið rækilegri athugun þar en í þessari hv. d., og álít það því mjög óhyggilegt að ganga á móti þessari till. kirkjumálan.

3. brtt., við 7. gr., virðist mér vera ástæðulaus. Það, sem kirkjumálan. hafði stefnt að í þessu efni, var, að presturinn hefði aðhald, svo að hann eyddi ekki um skör fram. Þess vegna var gert ráð fyrir, þar sem skilyrði væru fyrir hendi, að fela prestinum umsjón með verkinu, svo að hann hefði hvöt til þess að stilla kostnaðinum í hóf. En það var ekki gert að skyldu, ef viðkomandi trúnaðarmaður ríkisins áliti málinu betur borgið á annan hátt. Ég mun því greiða atkv. með 1. till., en á móti tveimur hinum síðari.