22.08.1931
Neðri deild: 36. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (1860)

15. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o.fl.

Jón Ólafsson:

Ég er einn þeirra, sem skrifuðu undir nál. með fyrirvara, eða sá eini, og kemur það til af því, sem ég hefi oft látið í ljós í þessari hv. d. áður, að ég tel það mikinn baga fyrir þá, sem eiga að njóta forkaupsréttar, að setja um það slík lög. Ég álít, að sveitar- og bæjarfélög eigi greiðari aðgang að því en þá leið, sem hér er farin, að eignast þau mannvirki, sem hér er um að ræða, sem sé með því að taka þau eignarnámi. Það er miklu greiðari aðgangur fyrir þau til að ná því takmarki. Hinsvegar er það ljóst, að það gefur undir fótinn, þegar ákveða á, forkaupsréttinn 5 árum fyrirfram handa bæjar- eða sveitarfélaginu. Það er þess vegna alveg gefið, þegar í einni gr. frv., 3. gr., er talað um, að forkaupsréttarverðlagið skuli miðast við boð, sem liggi fyrir í eignina, að margir spekulantar mundu ráðast í að gera boð í eignina, til þess eins að hafa hærra verð upp úr henni síðar.

Það hefir komið fram svipað álit hjá jafnaðarmönnum um svipuð mál á bæjarstjórnarfundum hér í bæ, þegar hefir átt að taka eignir, að þegar ætti að taka þær með forkaupsrétti, væri heppilegra að gera það strax, án þess að gefa það í skyn áður á þennan hátt, sem gert er ráð fyrir í frv. þessu. En að ég hefi ekki viljað gefa út sérstakt álit um þetta mál, er af því, að ég geri ráð fyrir, að það sé ákveðið, að það gangi fram. Menn munu orðnir mjög leiðir á því að staglast á þessu ómerkilega máli, sem hefir komið hér fyrir 4 eða 5 undanfarin þing, eða meira, eftir því, sem hv. þm. Seyðf. segir. En ég vil láta þessa getið hér, vegna þess, að ég er sannfærður um það, að fyrir þessi l. verða bæjar- og sveitarfélög að kaupa eignir dýrara verði en þau geta nú eignazt þær fyrir með hinni aðferðinni, eignarnámi, sem þau hafa rétt til að eignast þær með. Því þá er verðið ekki miðað við neitt hærra boð í eignina, eins og tiltekið er í þessu frv., heldur ákveðið, að svo skuli það vera. Og með þessum ákvæðum frv. er innan handar fyrir spekulanta að gera boð í eignina, vegna þess, að það þarf að vera ákveðið 5 árum fyrirfram, hvort það skuli gert á sínum tíma að taka eignina á þennan hátt. Þeir, sem vilja fyrirbyggja það, sem kallað er brask og spekulation, ættu því ekki að fylgja þessu frv., og þess vegna er ég á móti því, að ég vil ekki gefa slík tækifæri, sem hér eru lögð upp í hendur manna til að hafa meira upp úr eignum sínum en eðlilegt er.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta ómerkilega mál. Þetta er aðalatriðið, og það meginatriði, sem taka verður til greina undir þessum kringumstæðum. Því þó það sé nú orðið áhugamál jafnaðarmanna að koma þessu máli fram, er það upphaflega flutt af skilningsleysi og þekkingarleysi.