22.08.1931
Neðri deild: 36. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í C-deild Alþingistíðinda. (1862)

15. mál, forkaupsréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o.fl.

Jón Ólafsson:

Það getur vel verið, að þetta mætti ganga fyrir sig á þennan hátt, að í einstöku tilfellum yrði notuð eignarnámsl. En þeir, sem þekkja eins vel og ég braskið og agitationirnar, sem koma í slík mál, gera lítið úr, að sú leið yrði farin, og að þessi mannvirki yrðu tekin eignarnámi, úr því þessi leið er til fyrir spekulantana. (MG: Hvað mikið hækkaði bakaríslóðin við það?). Já, við skulum tala um það; hvað mikið hækkaði hún? Og hvað mikið hækkaði Gufunesið? Af hverju komst það í hátt verð, nema af því, að það var agiterað upp sem framtíðarland fyrir bæinn? Og menn trúðu því. Það stendur nú í 300 þús. kr., en var keypt fyrir 150 þús. Bærinn hefir alltaf haft tap á því, og ef það væri bókfært rétt, þá væri það nú helmingi dýrara en það var keypt.

Þá er ein hættan enn, og hún er mikil, að bæjar- og sveitarfélög glæpist á að taka eignir, sem gefa vexti, ef þær eru í normal verði, en er þó ekki þörf fyrir á hverjum tíma sem er, enda er ekki alltaf hægt að segja um það, hvenær verður þörf fyrir þær. En þarna er opnari leið en ella fyrir menn að taka eignir án þess nauðsyn krefji eða án þess að það sé beint þörf fyrir að taka þær. Sérstaklega vil ég minna á, að eins og þetta er útbúið í þessu frv., ef það verður að lögum, hvað það er grunnhyggnislegt og hve mikil vitleysa það er að gefa mönnum aðgang að slíkum spekulationum, sem felast í sjálfu frv. Því þó það geti komið fyrir, að hin leiðin verði farin, að taka eignarnámi, þá er ekki gott að gera það, nema færa rök fyrir því, að lögleg nauðsyn sé fyrir hendi til þess, og þá er líklegt, að menn verði gætnari í því að fara þá leið heldur en þegar agitationir og spekulationir koma inn í málið. Því þó beztu menn sjái, hvað verið er að gera, þá yrði að fara þá leið, sem fjöldinn, sem róið er bezt undir, vildi að farin væri. Og þetta mun sýna sig á sínum tíma.

Eins og ég sagði áðan, er búið að ala þá hugsun,hér í hv. d. og á Alþ., að með þessu frv. sé verið að tryggja bæjarfélögum lóðir og lönd og leiguréttindi, sem þau geti haft gott af, en það hefir enginn gert grein fyrir, hvernig með þetta verður farið, þegar til framkvæmda kemur.