22.08.1931
Efri deild: 39. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

132. mál, hýsing prestssetra

Jón Þorláksson:

Ég tel fyrir mitt leyti mjög varhugavert að samþ. Í. brtt. á þskj. 439, sem fer fram á að færa framlag ríkissjóðs úr 18000 kr. niður í 12000 kr: Ég álít, að þegar hið opinbera fer að byggja úr varanlegu efni, varði það mestu, að þessi mannvirki séu svo vel gerð, að þau þyki ekki úrelt og ófullkomin löngu áður en þau hafa náð eðlilegu aldurstakmarki. Menn mega vara sig á því, að kröfurnar hafa farið hraðvaxandi í þessum efnum síðustu áratugina, og ég vil biðja hv. flm. brtt. að athuga það, hvað þótti viðunandi húsakostur áður og hvað nú. Ef kröfurnar halda þannig áfram að vaxa, þá þykir mér ekki ólíklegt, að þau hús, sem byggð verða fyrir þessa upphæð, þyki ekki viðunandi að nokkrum árum liðnum, enda er það svo, að engar Aladdinshallir verða reistar fyrir þessa upphæð, þótt hún allt í allt kunni að nálgast 30 þús. krónur.

Nú er það að vísu svo, að ef verðlag lækkar og byggingarkostnaður einnig, má náttúrlega koma upp sæmilegum byggingum fyrir þessa upphæð, en ég vil benda hv. þdm. á það, að í frv. er því hvergi slegið föstu, að þessa upphæð skuli veita, heldur er aðeins sagt, að veita megi allt að 18 þús. kr. úr ríkissjóði og 8 þús. kr. úr kirkjujarðasjóði.

Ég sé, að brtt. fer fram á, að framlagið verði ákveðið 12 þús. kr., en ég álít ekki rétt að ákveða fasta upphæð, því að frv. sjálft felur það í sér, að heimilt er að lækka framlagið, en eins og sakir standa verður ekki kleift að koma upp sæmilegum húsum fyrir lægri upphæð en þessa, sem frv. heimilar.

Annars vildi ég segja það viðvíkjandi 2. brtt. hv. þm., að ég er henni samþykkur, því að ég álít það algera meiningarleysu að ætla að gera ríkissjóðinn að lánsstofnun. Ég fæ ekki skilið annað en að kirkjujarðasjóðurinn muni nægja til þessa og mun því greiða atkv. með þeirri brtt.