22.08.1931
Efri deild: 39. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (1877)

132. mál, hýsing prestssetra

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það má vera, að hv. 1. landsk. hafi rétt fyrir sér í því, að fram að þessu hafi ekki verið auðvelt að koma upp sæmilegum húsum í sveit fyrir minna en þá upphæð, sem í frv. er ákveðin. Ég hefi fylgzt með þeim byggingum, sem styrkur hefir verið veittur til úr byggingar- og landnámssjóði, og skal játa, að þær hafa orðið dýrar, þrátt fyrir góð lánskjör, og ég hygg, að menn séu sammála um, að það liggi í því, að ennþá hefir ekki tekizt að finna heppilega gerð á húsunum.

Það vill verða svo, að menn, sem áður bjuggu í rúmgóðum timburhúsum og torfbæjum, vilja hafa eins mörg herbergi í steinhúsunum, en nú hafa bændur verið hvattir til sparnaðar í þessum efnum og Alþingi hefir sett ákvæði til að takmarka þetta í lögum um Búnaðarbankann. Í sjálfu sér gæti ég vel verið samþykkur hv. 1. landsk. um það, að æskilegt væri að koma upp reisulegum húsum á prestssetrum, en þar sem líka verður að spara, þá fæ ég ekki séð, að hægt sé að leggja fram meira fé en farið er fram á í brtt. hv. 3. landsk.

Ef menn athuga þessar upphæðir, sem hér er um að ræða, 18 þús. kr. í frv. og 12 þús. kr. í brtt., og bera það saman við framlög byggingar- og landnámssjóðs til bændabýla, þá sjá þeir, að þar er allmikill munur, þannig að prestssetrin geta verið mun reisulegri.

Það sem réttlætir það, að samþ. brtt. hv. 3. landsk. er, að ég tel, að þarna sé gefið hæfilegt aðhald um leið og létt er af prestunum þungum byrðum, sem þeir rísa varla undir. Áður var það svo, að ef byggt var á prestssetrum, urðu prestarnir að greiða 4½% af fyrstu 14 þús. kr., og þetta leiddi til þess, að allt útlit var fyrir, að prestssetrin myndu leggjast í eyði, eins og sýndi sig líka með eitt þeirra í Eyjafirði. Þarna var engin ástæða fyrir prestinn til að spara, sökum þess að hann þurfti aðeins að borga vexti af fyrstu 14 þús. kr., en ekki af því, sem þar var fram yfir. Kirkjumálanefndin, sem þetta mál hafði til athugunar, lagði líka til, að þessu væri breytt, til þess að hlífa prestunum, og ákveðin væri einhver upphæð til slíkra bygginga. Ég skal ekki deila um það, hvort auðvelt sé að koma upp myndarlegum húsum fyrir 20 þús. kr., og ekki heldur um hitt, að skemmtilegt væri, að prestssetrin væru sem reisulegust, en nú eru svo gífurleg vandræði með hýsingu prestssetra, að óvíða getur hún talizt sæmileg. Til dæmis get ég nefnt, að á einu prestssetrinu hafði verið byggt hús ekki alls fyrir löngu, en 1930 var það orðið svo hrörlegt, að gera varð á því gagngerðar endurbætur, eða þá, að presturinn hefði neyðzt til að flýja úr því með konu sína og 6 börn.

Það er svo mikið um aðgerðir og viðhald á þessum timburhúsum, sem nú eru víðast á prestssetrum, að það verður að stilla í hóf með framlögin, og þótt eitt eða tvö hús verði byggð á ári, þá bætir það ekki eins fljótt úr þörfinni og æskilegt væri.

Án þess að fara langt út í þá sálma, vil ég þó geta þess, að það mun reynast erfitt á hverjum tíma að gera ráð fyrir kröfum komandi kynslóða, enda hefir sú reynslan orðið í San-Fransisko og víðar í Ameríku, að hentugast er að byggja aðeins fyrir eina kynslóð, því að hvað vel sem byggt er, er það oftast úrelt eftir 50 ár. Mér virðast því till. hv. 3. landsk. að öllu athuguðu ganga í rétta átt, og ég mun greiða þeim atkv. mitt.