20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (1891)

92. mál, kynsjúkdómavarnir

Frsm. (Einar Árnason):

Mér finnst kenna óþarflega mikils ákafa hjá hv. þm. Snæf. út af þessu máli.

Flest nauðsynjamál þurfa nokkurn tíma til þess að ná fram að ganga, og verður að teljast betra, að svo sé, ef málin fá með því betri afgreiðslu, heldur en þau séu samþ. í skyndi og undirbúningur sé ónógur.

Hv. þm. Snæf. sagði, að málið væri vel undirbúið, þar sem það hefði legið fyrir tveimur þingum, vetrarþinginu og þessu þingi. Ég get nú ekki séð, að það sé neinn sérstakur undirbúningur, þó að málið kæmist í n. í vetur, þegar svo mörgu öðru var að sinna. Og þó að það komi nú fram hér, þá er það vitanlegt, að ekki er hægt að koma öllu í verk á þessu þingi.

Ég vil líka benda hv. þm. á það, að hinn setti landlæknir hefir í bréfi sínu bæði bent á mikinn aukinn kostnað af ákvæðum frv. og á aðrar leiðir heldur en þar eru farnar. Það getur verið, að hv. þm. Snæf. vilji ekki fallast á skoðanir landlæknis á þessum málum, en n. þótti rétt að taka tillit til þess, sem hann segir.

Ég get ekki séð, að málið væri að neinu leyti hólpnara þótt rökst. dagskráin væri felld, þar sem það er öllum augljóst, að frv. gengur ekki fram á þessu þingi. Það þýðir ekki að segja, að þetta sé gott mál og gagnlegt; mörg slík mál önnur verða að bíða. Hinu mun óhætt að treysta, að er þetta mál kemur frá hæstv. stj. og verður lagt fyrir næsta þing, þá muni það fá nægan byr til þess að komast í gegnum þingið.