20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (1892)

92. mál, kynsjúkdómavarnir

Pétur Magnússon:

Þó að ég vildi ekki kljúfa allshn. í þessu máli, þá get ég samt tekið undir það með hv. þm. Snæf., að ég er ekki fullkomlega ánægður með afgreiðslu málsins. Ég hefði heldur kosið, að málið hefði náð fram að ganga á þessu þingi.

Eina frambærilega ástæðan til þess að vísa málinu til hæstv. stj. er sú, að það getur orkað tvímælis, hvort nægilegt húsrúm sé hér í sjúkrahúsum fyrir þau tíu sjúkrarúm, sem frv. gerir ráð fyrir. Landlæknir taldi tormerki á þessu, og er það því nokkur afsökun fyrir n., þó hún fresti málinu að þessu sinni. Ég verð samt að segja það, að mér þykir undarlegt, með þeim spítalafjölda, sem við eigum nú, ef ekki er hægt að veita þessa umræddu sjúkravist. En þar sem nú er langt liðið á þingtímann, þá taldi ég víst, að málið myndi ekki fá afgreiðslu á þessu þingi, og áleit því betra að vísa því til hæstv. stj., með það fyrir augum, að málið næði þá frekar afgreiðslu á komandi þingi. Eins og nú er komið málum, getur hv. þm. Snæf. enga von haft um það, að frv. verði samþ. á þessu þingi. Finnst mér því, að hann ætti eins og ég að sætta sig við þessa afgreiðslu málsins.