06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

1. mál, fjárlög 1932

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég skal ekki karpa lengi um þetta. En hv. þdm. og hv. 3. þm. Reykv. hljóta að skilja, að mikill munur er á því fyrir þá, sem virkilega bera þetta mál fyrir brjósti, að fylgjendur umbótanna séu í meiri hl. í nefndinni. Með meiri hl. aðstöðu getur sá meiri hl. hæglega klofið n. og skilað áliti sérstaklega.

Auk þess hafa framsóknarmenn lýst yfir því, að þeir ætli að gera sitt ýtrasta til þess að skila áliti fyrir næsta þing, og þá liggur málið auðveldara og ljósara fyrir, og þá getum við séð, hvað mikið af því réttlæti, sem Framsóknarfl. fleiprar um, er í orði og hvað mikið á borði. En það verður ekki fyrr en við höfum fengið fulltrúa þeirra í n. til að segja um, hverjar efndir eiga að verða á þeim hálfu loforðum, sem hæstv. forsrh. og fleiri úr þessum flokki hafa verið að dylgja um á mannfundum og víðar.

Ég játa það með hv. 3. þm. Reykv., að það orðalag, að n. skuli vinna á þeim grundvelli, að hver flokkur fái þingsæti í samræmi við kjósendatölu, er mjög mikilsvarðandi, enda er þetta fengið að láni frá sjálfstæðismönnum úr stjórnarskrárfrv. því, sem þeir fluttu í Ed. (HV: Till. var samin á undan frv.). Bæði hv. 3. þm. Reykv. og hv. þm. Ísaf., sem var nú að skrökva þessu að honum, viðurkenndu, að þetta væri snilldarlegt orðalag í frv. og sjálfsagt að fá það að láni, og mér finnst ekkert við það að athuga.

Ég hjó í það, að hv. þm. sagði, að jafnaðarmenn myndu ekki hafa gengið inn á að samþ. nein tekjuaukafrv., „nema þau, sem gengju eftir okkar till.“. Þetta er auðvitað alveg rétt. Þeir hefðu borið fram sin frv. og Framsókn samþ. þau. Fyrir mér var eingöngu spurningin sú, hvort jafnaðarmenn vildu játa kné fylgja kviði í kjördæmaskipunarmálinu og neita stj. um hvaða tekjur sem væri, út frá þeim forsendum, að við vildum sækja í hendur stj. þau mannréttindi, sem haldið er fyrir okkur. Ef jafnaðarmenn hefðu verið reiðubúnir til þess, hefði ég verið reiðubúinn til þess að fylgja þeim til þess.