06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

1. mál, fjárlög 1932

Héðinn Valdimarsson:

Ég hélt, að flokkar í landinu og flokkar á þingi væru fyrst og fremst til þess að berjast fyrir sínum áhugamálum og koma þeim fram. En það virðist sem sá flokkur, sem kallar sig Sjálfstæðisflokk, hafi aðeins eitt áhugamál, og það er, að fleiri menn af sömu tegund komist inn í þingið. Þó að þessi flokkur segðist fyrir kosningarnar hafa eitt mikið áhugamál, kjördæmaskipunina, þá hefir hún ekki orðið neitt verulegt deilumál milli hans og Framsóknarfl. þegar á þing var komið. Ég sé ekki, hvaða tilveruskilyrði slíkur sjálfstæðisflokkur getur haft. Þó að hann kæmi fleiri sínum mönnum inn á þing, þá yrði það aðeins til þess, að fleiri sjálfstæðismenn fylgdu Framsóknarfl. á þingi og stjórn hans, en til þess hafa kjósendur Sjálfstæðisfl. áreiðanlega ekki ætlazt.