22.08.1931
Efri deild: 38. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (1937)

26. mál, hafnargerð á Akranesi

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason) [óyfirl.]:

Síðan umr. var frestað í d. hefir rætzt talsvert úr, þannig, að bréf þau, sem meiri hl. sjútvn. sendi vitamálastjóra og Landsbankastj., hafa borið þann árangur, að vitamálastjóri gaf fljótt og vel þær upplýsingar, sem hann var beðinn um. Af umsögn hans kom það bert í ljós, að það er rétt, sem við höfum áður haldið fram, að málið hefir fengið lítinn undirbúning. Hann sendi afrit af bréfi til stjórnarráðsins um þetta mál, en tekur fram um eitt frv. sérstaklega, að þar sé um rannsókn að ræða, sem ekki sé að fullu lokið. 1. gr. telur hann að verði að breyta, því að hún sé óheppilega orðuð og geti orðið til tjóns fyrir fyrirtækið. Ég bendi á þetta því til sönnunar, að hvorki í vetur né á þessu þingi hafi verið leitað umsagnar þessa manns. Fullyrðing okkar meiri hl. um það, að málið hafi fengið óforsvaranlegan undirbúning, er því rétt.

Um fjárhagshliðina hefir aftur á móti ekki rætzt eins vel úr. En það er skiljanlegt, þegar um er að ræða mái eins og þessi, sem kosta hundruð þúsunda. Bæði stj. Landsbankans og ríkisstj. hafa látið í ljós, að gæta þyrfti hér varhygðar.

Nú er mikið kapp lagt á það, að þessi mál gangi fram, og vil ég ekki leggja stein í götu þess, þó að mér þyki málin ekki nógu vel undirbúin. Ég ber fram 2 brtt. við þetta frv. Hin fyrri er þess efnis, að fjárveiting, sem veitt hefir verið í fjárl., teljist með framlagi ríkissjóðs. Þetta ber þó ekki að skilja þannig, að fjárveiting til lendingarbóta á Akranesi á öðrum stað sé hér talin með. Hin brtt. lýtur að því, sem ég tel varhugavert við öll frv. Það er fjáröflunin. Ég hefi leyft mér að fara þess á leit, að aftan við 2. gr. frv. verði bætt ákvæði um, að þau lán, sem tekin kunna að verða af hafnarsjóði Akraneshrepps, verði tekin fyrir milligöngu Landsbanka Ísl. Ég sé ekki ástæðu til þess, að fylgismenn málsins gangi á móti þessari brtt. Það gæti orðið til þess, af því að komið er að þinglokum, að málin yrðu ekki afgr. á þessu þingi. En ég vil taka það fram, að fylgi mitt er beint bundið þessum skilyrðum. Og ég held mér sé óhætt að segja, að það eru þó nokkrir þdm. aðrir sömu skoðunar. Sé ég svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta frekar, en vænti að heyra undirtektir minni hl.