22.07.1931
Efri deild: 7. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (1938)

9. mál, brúargerðir

Frsm. (Halldór Steinsson):

Þetta frv. lá fyrir síðasta þingi, og náði þá samþ. þessarar hv. d. Samgmn. hefir haft frv. til athugunar og leggur eindregið til, að frv. verði samþ., með þeim breyt. þó, að inn í frv. verði bætt 3 ám: Staðará í Staðarsveit, Vatnsholtsá í Staðarsveit og Laxá í Neshreppi utan Ennis. Um 2 hinar fyrri ár er það að segja, að þótt þær geti ekki talizt farartálmi að sumarlagi fyrir ríðandi menn, eru þær illfærar bifreiðum, sérstaklega Vatnsholtsá. Hefir iðulega komið fyrir, að bifreiðar hafi setið þar fastar, eða þá orðið að snúa aftur. Er þetta mjög bagalegt, þar eð bílfærir vegir liggja langar leiðir að og frá þessum ám, og þótt þessir vegir séu ekki enn teknir í tölu þjóðvega, hefir það þó lengi legið fyrir, og má búast við, að það verði gert á næstunni. Er og ekki laust við, að það sé hálfeinkennilegt: að miklu fé skuli varið til vegagerðar beggja megin við þessar ár, en þær þó látnar óbrúaðar, svo að vegirnir verða ónothæfir að meira eða minna leyti. Þriðja áin, Laxá, er á milli tveggja fjölmennra kauptúna, Sands og Ólafsvíkur, og er hinn versti þröskuldur á svo fjölförnum vegi, einkum að vetrarlagi. Hefir oft komið fyrir, að menn hafa ekki getað komizt ferða sinna milli kauptúnanna vegna þessarar ár, og kemur slíkt sér oft mjög illa, t. d. þegar vitja þarf læknis, en þess þurfa Sandarar æðioft, því að á Sandi búa nú um 600 manns, og eiga þeir til Ólafsvíkur að sækja um læknishjálp.