22.07.1931
Efri deild: 7. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í C-deild Alþingistíðinda. (1948)

9. mál, brúargerðir

Frsm. (Halldór Steinsson):

Ég þarf ekki miklu að svara. Hv. 3. landsk. þm. hélt því fram, að ekki mætti breyta frv., af því að vegamálastjóri segði, að það ætti að ganga fram óbreytt. Ég get vel skilið það, að vegamálastjóri vilji þetta svo; hverjum þykir sinn fugl fagur, segir máltækið. Hinsvegar finnst mér vegamálastjóri geti ekki búizt við, að þm. breyti ekki þeim frv. sem fyrir þinginu liggja. Og þó að vegamálastjóri að sjálfsögðu sé manna kunnugastur vegamálum landsins, er hann þó ekki kunnugri innanhéraðsmönnum á þeim og þeim staðnum. Held ég og, að ég megi segja, að vegamálastjóri hafi aldrei komið á þær slóðir, sem hér er um að ræða. A. m. k. bendir það til þess, að hann hefir gleymt einni á þarna úr yfirliti sínu um þær ár á sýsluvegum, sem þarf að brúa.

Hv. 3. landsk. þm. var að spyrjast fyrir um það, hvort hér væri um stórar ár að ræða, þar sem við hefðum gert till. um, að þær yrðu teknar upp í 2. gr. A. III. Að vísu eru þetta ekki stórar ár, en engu að síður varð ekki hjá því komizt að setja þessar brýr á þennan lið, af því að sá vegur, sem hér gegnir, hefir ekki enn verið tekinn í tölu þjóðvega, en eins og hv. 3. landsk. tók fram, má búast við, að það verði gert á næstunni.