22.07.1931
Efri deild: 7. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (1952)

9. mál, brúargerðir

Jón Jónsson:

Það er gleðilegt að heyra, hvað menn virðast hér vera orðnir stórhuga, þar sem þeir telja það eðlilegast, að sem flestum brúm verði bætt inn í brúarl. Það er vitanlegt, að þörf er á að brúa margar ár enn hér á landi, og það sem fyrst, og er því ekki nema gott eitt við þessu að segja, en hér kemur það því miður til greina, eins og í öllum öðrum efnum, hvað geta ríkissjóðs er takmörkuð. (JBald: Það er ómögulegt!). Það gleður mig, að hv. 2. landsk. skuli vera svo bjartsýnn á fjárhag ríkisins, þó að mér hafi nú heyrzt öðru gegna hjá honum stundum, en því miður er ég hræddur um það, að fjárhagurinn sé takmarkaður, og að við verðum því að stilla í hóf um þessar framkvæmdir sem aðrar og sjá um það, að brýrnar komi hlutfallslega niður á hin ýmsu héruð. Og ég býst við því, að það mundi koma í ljós við nánari rannsókn í þessu efni, að fleiri brýr þarf að gera en þarna á Snæfellsnesi, þar sem mun vera um smábrýr að ræða, sem ekki kosta nein ósköp. Sé ég enga ástæðu til að ívilna þessu héraði fremur en öðrum, og vil benda á það, að ríkissjóður leggur fram ríflegan hl. af kostnaðinum við brúargerðir á sýsluvegum, 2/3 að ég ætla. — Hv. þm. Snæf. var að tala um það, að umræddur vegur yrði tekinn í tölu þjóðvega alveg á næstunni. Það hafa nú komið fram svipaðar till. um marga fleiri vegi, t. d. veginn frá Hvítárbrú til Akraness, og þar er 1 eða fleiri ár, sem þarf að brúa. Og svona mun víðar vera. Það getur að vísu verið álitamál, hvort rétt sé að taka þessar brýr upp í frv. eða ekki, en ég held, að ef það verður gert, hljóti óhjákvæmilega af því að leiða, að samþ. verði margar fleiri brýr, og ég er hræddur um, að slíkt mundi verða til að þenja brúarl. meira út en gott má þykja.

Að þetta frv. sé svo heilagt, að ekki megi við því hrófla, eins og hv. 2. landsk. gaf mér að skoðun, er náttúrlega eins og hver önnur firra, en ég hélt því fram, og held því fram enn, að vegamálastjóri eigi að vera ráðunautur þingsins um slíkar framkvæmdir, á meðan við höfum hann á annað borð. Og þess vegna hélt ég, að n. hefði spurzt fyrir um álit hans, áður en hún ákvað að leggja þetta til málanna. Að vegamálastjóri hafi vanrækt störf sín, eins og hv. þm. Snæf. var að gefa í skyn, þykir mér fremur ósennilegt, og þó að hann hafi aldrei komið á þessar slóðir, sem hér er um að ræða, ætla ég, að honum hafi verið innan handar að kynna sér, t. d. við athugun á uppdráttum herforingjaráðsins, að þarna er á, sem heitir Laxá, eða hvað það nú er.