29.07.1931
Neðri deild: 15. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (2002)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Frsm. (Jón Ólafsson):

Það ætti ekki að þurfa að hafa langa framsöguræðu fyrir þessu máli í þetta sinn, vegna þess að þeir hv. þm., sem hafa átt sæti hér undanfarin ár, hafa haft tækifæri til þess að kynnast öllum málavöxtum. Hinsvegar eru hér nú nokkrir nýir menn, sem hafa ef til vill ekki kynnt sér þetta mál ýtarlega, og ætla ég þess vegna að fara um það nokkrum orðum. Fyrst ætla ég að lýsa því, að þetta stykki af Seltjarnarneslandi, sem um er rætt, er alveg umkringt af landi Reykjavíkur og hefir svo fjölmargt sameiginlegt með Reykjavík, t. d. tollgæzlu. Ein af aðalástæðunum er sú, að íbúarnir þarna sækja til Reykjavíkur bæði vatn og rafmagn. Einnig sækja þeir mestalla atvinnu sína hingað, margir í daglaunavinnu eða skrifstofuvinnu. Útkoman á þessu verður sú, að þeir njóta allra sömu hlunninda sem bæjarbúar, en sleppa við allflestar kvaðir, sem á þeim liggja. — Samt er þeim að mörgu leyti miklu hagkvæmara að vera í sambandi við Rvík en að vera eins og nú. Börn þeirra sækja skóla til Rvíkur, enda er það betra heldur en að sækja skóla út á Nes. Þá má minnast á þá miklu brunahættu, sem þarna er. Á stuttum tíma hafa orðið þarna tveir stórbrunar, brunalið hefir verið sótt til Rvíkur, en því er í raun og veru óheimilt að fara með slökkvitæki út úr lögsagnarumdæmi Rvíkur, því að þar þarf það að vera til taks, hvenær sem kallað er. Þessi hlunnindi fengju þeir einnig með sameiningunni. Fjöldi íbúanna hefir einnig viðurkennt nauðsyn þessa máls, með því að skrifa undir áskorunarskjal til hins háa Alþ., sem fer í þá átt.

Það, sent kemur Reykvíkingum til að sækjast eftir þessu stykki, er sú hætta, sem liggur í því fyrir bæjarfélagið að eiga það ekki. Rvíkurbúar hafa byggt mikið mannvirki, þar sem Rvíkurhöfn er: samt er hún enn eins og hálfinnréttað hús, og þarf vafalaust að eyða enn í hana mörgum millj., áður en hún getur starfað fullnægjandi. Þessi blettur, sem hér ræðir um, á yfir að ráða allmiklu landi að sjó, og gæti þar risið upp hættulegur keppinautur við Reykjavíkurhöfn, ef bærinn á ekki þennan blett. Ennfremur má benda á, að þarna er byggt gersamlega skipulagslaust. Það er víst, að úr þessu verður ekki hægt að mæla móti þessari sameiningu til lengdar, en ef það dregst, verður búið að byggja þarna svo óskipulega, að skömm er að. Það má taka t. d. mýrina hérna megin við Skildinganesið. Þetta er tilvalinn staður til þess að hafa þar í framtíðinni skemmtigarð fyrir Rvíkurbúa, en nú sem stendur hefir bæjarstjórn engin ráð á því, hvernig búið er að þarna í kring. Þarna rétt hjá hafa 2–3 grútarbræðslustöðvar verið settar. Þær eru að vísu ekki starfræktar nú, en þær standa þarna tilbúnar að taka á móti þeirri vöru, sem þeim er ætlað að vinna úr.

Þetta er það helzta, sem ég vildi taka fram. Að lokum ætla ég að undirstrika það, sem ég sagði áðan um brunahættuna; svona lítil þorpsfélög hafa ekki efni á að koma sér upp dýrum slökkvitækjum, en þau fengjust til afnota eftir þörfum, ef það legðist til Rvíkur.

Okkur flm. hefir láðst að geta þess, að á síðasta ári stofnuðu íbúar þessa þorps vatnsveitufélag, og fengu þeir vatn frá Rvík, þó að bærinn væri alls ekki aflögufær með vatn. Það er eðlilegast, að bærinn taki á sig þann kostnað, sem þessir einstöku menn hafa lagt í, og býst ég við, að við flm. flytjum brtt. þessu viðvíkjandi við næstu umr. þessa frv.

Þessu frv. hefir verið illa tekið að undanförnu. Fyrst þegar það var borið fram, voru aðeins 3–4 með því. En á síðasta þingi féll það með jöfnum atkv. Mönnum hefir sífellt orðið það ljósara og ljósara, hvílík nauðsyn þetta væri. Á þessari sameiningu ættu engir að þurfa að tapa, því að gert er ráð fyrir nefnd, skipaðri óvilhöllum mönnum, sem meti töp þau er af þessu kunna að leiða fyrir einstaka menn. Svo sé ég ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum.