29.07.1931
Neðri deild: 15. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (2005)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Héðinn Valdimarsson:

Ég vil þakka n. fyrir skjóta afgreiðslu í þessu máli, og nú fer það væntanlega svo, að það nær fram að ganga. Hv. þm. G.-K. talaði nokkur orð meira af vilja en mætti. Það er mjög dregið niður í honum frá því á síðasta þingi, hvað þá heldur, þegar frv. kom fyrst fram, þegar menn máttu varla tala fyrir ofsanum í honum. En nú sér hann, hver endalokin munu verða í þessu máli. Nú talar hann um að geyma Skildinganeshrepp sem einhverskonar vaxandi fjársjóð handa Kjósarsýslu til þess að geta selt hann sem dýrustu verði síðar. Hv. þm. skilur það vel, að lóðahækkun í Skildinganeshreppi stafar ekki af öðru en auknum framkvæmdum í Reykjavík. Kjósarsýsla gerir ekkert til eflingar velgengni Skildinganeshrepps. Viðvíkjandi því, að ekki hafi verið leitað umsagnar hreppsn., þá var það gert fyrir 2 árum, og þá var hreppsn. á móti þessu af svipuðum ástæðum og hv. þm. Hvað viðvíkur skaðabótakröfunni, þá finnst mér eðlilegt, að það verði sett ákvæði um það við næstu umr., að Rvíkurbær skuli kaupa vatnsveituna af félaginu, sem hana hefir gert, svo að þar verði ekki einkavatnsveita, er Reykjavíkurbær á annars alla vatnsveitu Reykjavíkur. Annars gerði ég ráð fyrir, að hv. þm. kæmi með brtt. um það.