10.08.1931
Efri deild: 25. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Baldvinsson:

Það hefir verið venja hér í d. nokkur undanfarin ár, að þm. hafa talað við stjórnina um það, sem þeim hefir fundizt ábótavant í framkvæmdum hennar. En nú vill svo til, að kosningar eru nýlega um garð gengnar og stj. enn í lamasessi, og það virðist ekki ganga greiðlega að koma henni á laggirnar. Það er því ekki sama ástæða og áður að ræða við stjórnina, þó af miklum gnægðum sé að taka. Ég vil því beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort ekki megi búast við því undir umr. fjárl., að menn geti talað við þá stjórn, sem má búast við, að verði til frambúðar. Það eru sagðar sögur um það, að það gangi ekki greiðlega að koma stjórnarmyndun á. Ekki er nú beinlínis um það talað, að menn séu ófúsir á að taka þátt í landsstjórninni, en samt hefir nú ekki tekizt að koma upp stjórninni. En það verður aldrei eiginleg landsstjórn, heldur flokksstjórn.

Mig langar til þess, þegar er nú komið að umr. fjárl., að spyrja hæstv. forsrh. nokkurra spurninga viðvíkjandi gjöf, sem ég fékk í upphafi þingsins, sem heitir „Skýrsla um nokkrar framkvæmdir ríkisins“. Ég þakka honum fyrir þessa fallegu myndabók, en langar þó til að spyrja hann, hvort ég eigi að þakka honum persónulega, eða hvort bókin hefir verið gefin út fyrir ríkissjóðsfé, og ef svo er, þá langar mig til að spyrja, hvað mikið það hafi kostað að gefa bókina út, og hvort áreiðanlegar tölur eru við hendina. Ég hefi séð, að í raun og veru voru bændur landsins búnir að fá bókina áður en hún kom til annara, því að megnið hefir verið gefið út áður í blaði framsóknarmanna, og myndirnar hafa víst verið fyrir það gerðar, en síðan lánaðar ríkinu. Það er því verulegur styrkur, sem stjórnarblaðið hefir haft af þessu. Þessi fyrirspurn mín er borin fram af forvitni, og af þeim ástæðum, sem ég gat um í upphafi.