29.07.1931
Neðri deild: 15. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (2012)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Jón Auðunn Jónsson:

Á flestum þeim þingum, sem ég hefi átt sæti, hafa komið fram svipuð frv. og það, er nú liggur fyrir. Reykjavík hefir af og til þurft að fá landauka og jafnan snúið sér til löggjafarvaldsins til þess að fá hann, en endirinn á öllu hefir orðið sá, að Alþingi hefir vísað þessu máli heim, til þess að samninga yrði leitað milli viðkomandi hreppa og Rvíkur, og mér er ekki kunnugt um, að nokkurntíma hafi strandað á þessum samningum. Rvík hefir á þann hátt fengið margar jarðir austan bæjarins og jafnan með bezta samkomulagi við hlutaðeigandi hreppa, auðvitað með því að greiða talsverð gjöld fyrir þessar jarðir, en Rvík hefir fengið það, sem hún hefir þurft, og hrepparnir verið ánægðir með samningana. Ég vænti og að líkt fari um þetta mál.

Í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir neinum uppbótargreiðslum til Skildinganess fyrir þann gjaldstofn, sem það missir, ef þetta land verður afhent Rvík, og þó er það víst, að sýslufélagið hefir ekki lítinn halla af því, að stór, verðmæt og þéttbýl landspilda sé tekin undan sýslunni án þess að neitt sérstakt komi fyrir.

Ég sé, að það er margt, sem mælir með því, að Rvík fái þetta land, og ég er sannfærður um það eins og áður, að samningaleiðin er bezta leiðin fyrir báða aðila, og að hún muni takast, ef unnið er að því með alúð. Ég sá ekki á vetrarþinginu í vetur, að fyrir lægju neinar upplýsingar um það, að leitað hefði verið samninga við hlutaðeigandi sýslunefnd. og heldur ekki, að nýlega hefði verið leitað samkomulags við hreppsn. í Seltjarnarneshreppi. Það eru meira en 2 ár síðan bæjarstj. Rvíkur hafði snúið sér til hreppsn. og fengið þá þungar undirtektir, en þrátt fyrir það má vel vera, að hreppsn. sé nú orðin annars hugar og vildi e. t. v. láta þetta af hendi, en hinsvegar mun hún ekki að fyrra bragði fara að snúa sér að því máli, heldur láta bæjarstj. hafa frumkvæðið að því. Sjálfsagt væri líka, að hreppurinn fengi einhver hlunnindi fyrir það tjón, sem hann hlyti að bíða við það að láta þetta land af hendi.

Eins og ég gat um áðan, þá held ég, að samningaleiðin sé bezt, og í trausti þess, að bæjarstj., sýslun. og hreppsn. geti komið sér saman án þess að Alþingi fari að beita þvingun við hreppsbúa, vil ég leyfa mér að bera fram svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

Deildin telur, að bæjarstj. Reykjavíkur beri að leita samninga við sýslun. Kjósarsýslu og hreppsn. Seltjarnarneshrepps áður en málinu er ráðið til lykta, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.