29.07.1931
Neðri deild: 15. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (2017)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Einar Arnórsson:

Ég vildi leyfa mér að svara ræðu hv. þm. G.-K. fáum orðum. Hann telur, að það séu engar nýjar upplýsingar í þessu máli fyrir þinginu. Þetta er ekki rétt hjá hv. þm., því að það hefir verið skýrt frá ýmsu nýju í málinu. Ég hefi t. d. nefnt samgöngubót þá, sem hér er í vændum og þetta þorp yrði þá vitanlega aðnjótandi undir eins og það hefði sameinazt Reykjavík. Ég ætla nú ekki að fara að sannfæra hv. þm. G.-K. um hvort það atriði skiptir máli, að börn þessara manna, sem þarna búa, geti fengið greiðan aðgang að skóla eða ekki. Aðrir munu líta svo á, að það sé mikill munur á því að láta börn sín fara hingað til Rvíkur til skólasóknar eða þurfa að senda þau suður fyrir Mýrarhús í skólann þar í hvernig veðri sem er. Ef ég ætti heima í Skildinganesi að vetri til, þá myndi ég leggja mikið upp úr þessu atriði einu, þótt ekki væri annað. Ef þetta þorp héldi áfram að vera í Seltjarnarneshreppi, þá yrði óhjákvæmilegt að reisa þar barnaskóla innan skamms, en ef þorpið sameinaðist Rvík, þá myndi það mega bíða enn um stund, þar sem auðvelt væri fyrir börnin að sækja skóla til Rvíkur, þegar góðar samgöngur væru komnar við þorpið.

Eitt atriði, sem miklu máli skiptir í þessu sambandi, tók ég ekki fram, og það er, að ef þorpið sameinast Reykjavík, þá verða brunamál þess sett í samband við bæinn. Af þessu hlýtur að leiða iðgjaldalækkun í þorpinu, bæði á húsum og innanstokksmunum. Það getur verið, að ríkir menn leggi ekki mikið upp úr þessu, en hinir fátækari meta það áreiðanlega að verðleikum. Hv. þ.m. G.-K. talaði um smekklausar byggingar í Reykjavík. Ég skal ekki neita því, að hér er mörgu ábótavant í því efni, og nákvæmlega er hið sama að segja um þorpið þarna suður frá. Það atriði, sem mestu máli skiptir í þessu sambandi, er, að skipulag verði sett á byggingar í þorpinu. En til þessa virðist fullkomið skipulagsleysi hafa ríkt þar.

Það, sem hv. þm. G.-K. er nú að segja við mig, að það sé einmitt svona í Rvík, er ekki rétt, því að nú er byggt eftir skipulagi, og byggingarnefnd neitar oft um leyfi til húsabygginga, þegar það kemur í bága við skipulag það, sem ákveðið hefir verið. Því hefir oft verið haldið fram í þessu máli, þótt ekki hafi það komið fram í þessum umræðum, að það væri ekki von, að þorpsbúar vildu komast undir Reykjavík, þar sem þeir myndu þá þurfa að greiða miklu hærri skatta. Það er að vísu satt, að til eru menn, sem beinlínis flýja úr Rvík í von um, að þeir komist hjá því að greiða eins mikla skatta, en menn eru þó farnir að hugsa á aðra leið nú, því að víst er um það, að einstakir menn, sem af þessum ástæðum fluttu úr Rvík, hafa orðið fegnir að geta selt hús sín og komist til bæjarins aftur, og til sönnunar þessu máli gæti ég nefnt þó nokkur dæmi. Það er einnig víst, að þeir menn, sem tekið hafa húsnæði á leigu þar suður frá, hafa, þótt há sé húsaleigan talin í bænum, reynt að komast hingað aftur við fyrsta tækifæri. Samgönguerfiðleikarnir suður frá hafa valdið því, að þeir leigjendur, sem þar eru, hafa að öllu samanlögðu talið ódýrara að búa hér í Rvík.

Þeirri mótbáru hefir líka verið haldið fram gegn þessari sameiningu, að lóðareigendur í Skildinganesi myndu bíða við það stórtjón. Til þessa er fyrst því að svara, að þótt þetta væri rétt, þá væri alls ekki hægt að setja fyrir sig hagsmuni nokkurra einstaklinga. Í öðru lagi er þetta tómur misskilningur. Lönd þessara manna munu þvert á móti hækka mjög í verði sökum hinna mörgu kosta, sem sameiningin við Reykjavík mundi hafa í för með sér.

Ég held, að tilvitnanir hv. þm. í sveitarstj.lögin hafi alveg mistekizt. Báðar þær gr., sem hann vitnaði í, 19. og 42. gr., munu ekki eiga við þetta mál, heldur hendir samhengi þeirra til, að þær eigi við afskipti framkvæmdavaldsins af sveitarstj.málum, því að í gr. stendur, að þessi stjórnarvöld, hreppsn. og sýslun., geti að fyrra bragði sent ráðh. álit sitt. Vitanlega þurfti ekki að taka þetta fram í lögum, en mér sýnist eftir samhenginu í gr., að löggjöfin muni þó aðallega eiga við afskipti framkvæmdavaldsins af þessum málum. Hinsvegar má fallast á það með þessum hv. þm., að venjulega sé það rétt að leita álits þessara sveitarstjórnarvalda, en í raun og veru er því til að svara í þessu tilfelli, að álit hreppsnefndar er nú þegar fengið og álit sýslun. vita menn hvernig verður. Ef hv. þm. G.-K. hefði ekki á móti frv., þá gætu menn áreiðanlega dregið af því þá ályktun, að hlutaðeigandi sýslun. væri það ekki heldur. En nú er hv. þm. mjög á móti frv., og þá má áreiðanlega álykta, að hann tali þar í nafni og umboði hlutaðeigandi sveitarstjórnarvalda, því að hv. þm. mun vel vita, hvað kjósendum hans kemur. Hitt er ósköp þægilegt, að koma með það í máli, sem maður er á móti, að leita þurfi álits eins og annars. Það er ósköp vel lagað til þess að snúa mönnum frá málinu í bili og veikja sannfæringu manna í því, hverju fylgja skuli. Rökst. dagskrá eins og sú, sem fram kom frá hv. þm. N.-Ísf., er ein af þessum þægilegu aðferðum, sem menn hafa til þess að kistuleggja mál.

Hv. þm. G.-K. lét um mælt eitthvað á þá leið, að hagur Rvíkur væri í þessu efni sama sem skaði hreppsins og sýslunnar. Ég held, að hann hafi þar sett upp rangar líkingar, og að „equal“-merkið hafi ekki átt við á milli þessara talna. Það getur verið, að hreppurinn hafi einhvern óhag af þessu, en á það er að líta, að hann losnar líka við miklar skyldur, eins og byggingu barnaskóla, vegamál þorpsins o. s. frv. Einnig geri ég ráð fyrir, að þorpið yrði innan skamms að sjá sér fyrir slökkviliði. Það getur ekki gengið svo til lengdar, að ef eldur kemur upp þarna fyrir sunnan, þá verði menn að láta sér nægja að horfa aðgerðarlausir á hús sín og fjármuni brenna til ösku. Það tjáir ekki, þótt fást kunni slökkvilið héðan úr bænum, því að alltaf getur komið fyrir að kvikni í hér, svo að það er með öllu ófært að leyfa slökkviliðinu að yfirgefa bæinn. (BÁ: En má það, ef þorpið sameinast bænum?). Þá er það skylda þess. (PO: En brunahættan er hin sama). Já, það er hún að vísu, en eftir því sem svið það, er brunaliðið á að gæta, stækkar, þá verður líka að auka það og gera það fullkomlega fært um að annast það, sem skyldan býður því. Og er einsætt, að Reykjavíkurbær gerir það. Mér þykir vænt um, að hv. þm. G.-K. segir, þó í lágum hljóðum sé, að þetta sé rétt hjá mér. (ÓTh: Nei, nei, ég sagði það ekki). Ég vil taka það fram, að ég vil fara sanngjarnlega með hrepp og sýslu í þessu máli. Hitt er annað mál, hvort þessir aðilar bíða tjón af sameiningu þorpsins við Reykjavík. Það verður að meta með þeim hætti, sem í frv. segir.