08.08.1931
Efri deild: 24. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (2018)

9. mál, brúargerðir

Ingvar Pálmason:

Ég á nokkrar brtt. á þskj. 110 við brúarlagafrv., og eru þær nokkuð margar árnar, sem þar er bætt við. Fyrst er brtt. við 2. gr. I. c. Þar bætast inn brýr á ekki færri en 11 ár, allar á þjóðvegum; eru öll þessi brúarstæði í þrem syðstu hreppum Suður-Múlasýslu. Ég viðurkenni, að það sé rétt hjá vegamálastjóra, að brúarstæði á þessum ám séu lítt rannsökuð, en eitthvað hafa þau þó verið athuguð. En sé hér um nokkra sök að ræða, þá liggur hún hjá vegamálastjóra sjálfum. Ég álít það ekki hlutverk sýslu- eða sveitarstjórna að rannsaka brúarstæði á þjóðvegum, en þessi vegur, sem hér um ræðir, hefir verið þjóðvegur um mjög langt skeið. Eru margar af ám þessum alltorfærar, og allar eru þær óbrúaðar. Veit ég ekki til þess, að á þessum þjóðvegarkafla sé nema ein brú. og var hún gerð fyrir 15 eða 16 árum, og var þá talin á því full nauðsyn. Er engin ástæða til þess að lýsa hverri á um sig, en hitt er víst, að engin sanngirni mælir með því, að á jafnlöngum þjóðvegarkafla, sem er upp yfir 100 km., skuli einungis vera 1 brú. Hygg ég að á síðustu 15 árum muni tæplega hafa verið kastað steini úr götu á þessum þjóðvegi. Man ég til þess, að Breiðdalsheiði var rudd og vörðuð öðru hverju fyrir svo sem 20 árum, en fyrir 2 árum fór ég þar um aftur og þóttist sjá, að þar myndi ekki hafa verið varðað mjög lengi. Tel ég það óverjandi, ef brúarlög eru endurskoðuð án þess að tekin sé ein einasta brú á þessum þjóðvegi. Veit ég ekki, hver finnur sanngirni í því, að alllangur vegarkafli eins og þessi sé látinn bíða, þangað til búið er að brúa flestallar sprænur annarsstaðar á landinu. Hitt játa ég, að þörfin á þessum brúm er misjafnlega aðkallandi, eftir því, hverjar eru, en til þess kemur í framkvæmdinni að ákveða, hverjar fyrir skuli ganga.

Ég vil minnast nokkrum orðum á brúna yfir Búðará á Fagradalsbraut. Fannst mér mega ráða það af ræðu hv. frsm., að vegamálastjóri væri á móti þessari brú, af því að búarstæðið sé á hreppavegi. Allir vita, að þjóðvegur liggur út á Eskifjörð og er jafnframt notaður sem akvegur. Þessi brú er nú á veginum til Eskifjarðar, að vísu í Búðareyrarkauptúni. Sé ég ekki annað en að farartálminn sé samur og jafn vegfarendum, þótt sú afsökun sé höfð, að hreppnum beri að kosta þessa brú, sem nú er orðin ófær.

Þriðji liður brtt. minnar fjallar um ár, sem ekki eru á þjóðvegum. Tvær fyrri árnar, sem þar getur. Múlaá og Geitdalsá hjá Þingmúl., eru í Skriðdal og mynda hina illræmdu Grímsá, sem að vísu hefir verið brúuð niðri á Völlum. Ekki var það þó gert fyrr en 20 menn höfðu látið lífið í henni, svo að sagnir séu af. En þó að brú sé á Grímsá niðri í Vallahreppi. kemur það ekki að notum fyrir Skriðdælinga, því að áin skiptir Skriðdal í tvennt, og er þar mikill farartálmi, eins og þeir, sem til þekkja, munu geta borið vitni um, auk þess sem áin oft er hættuleg lífi þeirra, sem yfir hana þurfa að fara. Verður því ekki hjá því komizt annaðhvort að brúa Grímsá líka í Skriðdal, eða þá að brúa þessar tvær ár, sem hana mynda, eins og ég hefi leyft mér að leggja til, enda telur vegamálastjóri, að heppilegra sé að fara þá leið. Hefir þegar verið gerð lausleg áætlun um, hvað þessar brýr myndu kosta, eins og vegamálastjóri réttilega tekur fram. Hygg ég, að viðkomandi héruðum þætti allnærri sér höggið, ef þeim væri synjað um þessar brýr, þar sem verið er að setja ný brúarlög á annað borð, því að ef þessar brýr eru ekki teknar upp í brúarlögin nú, er ekki útlit fyrir annað en þær verði að bíða, þangað til brúarlögin eru tæmd á ný.

Þriðja brúin, sem farið er fram á undir þessum lið till. minnar, er Norðfjarðará hjá Skuggahlið. Þessi á er á milli Eskifjarðar og Norðfjarðar, og er það rétt hjá vegamálastjóra, að ekki hefir enn verið gerð nein kostnaðaráætlun um hana, en ég geri ráð fyrir, að hann verði aldrei mikill, enda ætti það ekki að geta komið að sök, þó að engin kostnaðaráætlun sé til, því að ég geri ekki ráð fyrir, að fé verði veitt til að byggja brúna fyrr en áætlunin hefir verið gerð. Er og víst, að engin sanngirni mælir með því, að þessi brú verði ekki tekin upp í brúarlögin, því að svo verður að líta á, að þær brýr, sem ekki eru teknar upp í brúarlögin nú, komi ekki til greina fyrr en brúarl. eru tæmd, eins og ég áður sagði.

Fleiri orð sé ekki ástæðu til að hafa um þessar brtt. mínar, en ég vænti þess, að hv. d. taki þeim vel.